Viðskipti innlent

Undirbýr frumvarp um skattaafslátt vegna fjárfestinga í nýsköpun

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét orðin falla á opnum fundi Félags atvinnurekenda fyrr í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét orðin falla á opnum fundi Félags atvinnurekenda fyrr í dag. Vísir/GVA
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að í undirbúningi sé frumvarp um skattaívilnanir til handa einstaklingum sem kaupa hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum.

Þetta kemur fram í frétt Félags atvinnurekenda, en Bjarni lét orðin falla á opnum fundi félagsins, „Leiðtoginn í atvinnulífinu“, fyrr í dag.

„Það er ekki alveg einfalt verkefni að skilgreina nákvæmlega hvað eru nýsköpunarfyrirtæki í þessu samhengi, en að því er unnið að útfæra reglurnar þannig að að séu skýrir hvatar til að styðja við nýsköpun, meðal annars með skattaafslætti með þessum hætti,“ sagði Bjarni.

Í frétt FA segir að ráðherra hafi sagt að stjórnvalda biðu fjölmörg verkefni sem miðuðu að því að „leiðtoginn í atvinnulífinu“ gæti náð þeim markmiðum sem hann stefndi að. „Að stjórnvöld styðji við framtakssemi, styðji við þá sem eru tilbúnir að leggja á sig vinnu og hafa fjármagn til að hrinda hugmyndum í framkvæmd, en séu ekki sjálfstæð hindrun í vegi þess fólks.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×