Viðskipti innlent

Guðmundur í Pizzunni tekur við Ruby Tuesday

ingvar haraldsson skrifar
Guðmundur hyggst leggjast yfir á næstunni hvaða breytingar þurfi að gera á rekstri Ruby Tuesday.
Guðmundur hyggst leggjast yfir á næstunni hvaða breytingar þurfi að gera á rekstri Ruby Tuesday. vísir/vilhelm
Guðmundur Arnfjörð, sem rekið hefur pítsastaðakeðjuna Pizzuna undanfarin 17 ár, hefur nú tekið viði rekstri veitingastaða Ruby Tuesday.

Guðmundur segir í samtali við Veitingageirann að hann muni halda rekstri Pizzunnar áfram samhliða rekstri Ruby Tuesday. „Pizzan hefur gengið vel, ég rek núna fimm staði, pítsa er vinsæll fjölskyldumatur og það breytist seint. Ég er ekkert hættur í pítsubransanum, það blundaði alltaf í mér að opna veitingahús. Tækifærið kom og ég stökk á það,“ segir Guðmundur.

Tveir Ruby Tuesday staðir eru reknir á Íslandi, annar í Skipholtinu og hinn á Höfðabakka. Guðmundur hyggst leggjast yfir á næstunni hvaða breytingar þurfi að gera á rekstri staðanna. „Ég ætla að hlusta eftir röddum viðskiptavina og meta í kjölfarið hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á matseðli og annarri þjónustu. Ég mun einbeita mér að rekstrarlagfæringum til að byrja með.“

Guðmundur rekur einnig myndbandaleiguna Leigan í Garðabæ sem áður hét Bónusvídeó. „Ég hef rekið vídeóleigu í 21 ár í Garðabænum, maður er orðinn risaeðla á þeim markaði,“ segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×