Viðskipti innlent

Vilja 24 þúsund króna launahækkun að meðaltali

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
VR kynnti í dag Samtökum atvinnulífsins launakröfur sínar í komandi kjarasamningum. Kröfur þessar voru samþykktar með „yfirgnæfandi meirihluta“ á fundi trúnaðarráðs félagsins í gær. VR vill að samið verði til eins árs og að meðalhækkun launa sé 24 þúsund krónur. Að lágmarkslaun verði 254 þúsund fyrir fullt starf.

Þá vill félagið að við launahækkanir verði stuðst við launaþróunartryggingu á hámarki 50 þúsund krónur. Frá þeirri upphæð dragast launahækkanir á tímabilinu 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2015, eða 2,8 prósent sem samið var um í síðustu kjarasamningum og allar hækkanir umfram það.

„VR leggur áherslu á að leiðrétta laun félagsmanna miðað við þær launahækkanir sem orðið hafa á vinnumarkaði síðustu misseri og metur kostnaðarauka atvinnulífsins innan þeirra marka sem fyrirtækin þola,“ segir í frétt á vef VR.

Ástæða þess að VR vill að samið verði til eins árs er meðal annars óvissa með afnám gjaldeyrishafta. Þá sagði Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, ap vantraust á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda gerðu að engu möguleika á langtímasamningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×