Viðskipti innlent

Íslendingar og Pólverjar á lágmarkslaunum jafn lengi að vinna fyrir bjórnum

ingvar haraldsson skrifar
Launafólk á lágmarkslaunum í Púertó Ríkó er sneggst að vinna sér inn fyrir einum bjór eða um 12 mínútur.
Launafólk á lágmarkslaunum í Púertó Ríkó er sneggst að vinna sér inn fyrir einum bjór eða um 12 mínútur. vísir/stefán
Þeir sem fá greidd lágmarkslaun hér á landi eru álíka lengi að vinna sér fyrir einum bjór og þeir sem fá greidd lágmarkslaun í Póllandi, Króatíu, Kosta Ríka og Panama. Lágmarkslaun hér á landi eru 1.161 króna á klukkustund en meðalverð á stórum bjór á veitingastað eða bar hér á landi eru 950 krónur samkvæmt upplýsingu frá greiningarfyrirtækinu Numbeo. Því eru þeir sem fá greidd lágmarkslaun hér á landi tæplega 50 mínútur að vinna sér inn fyrir einum bjór.

Til samanburðar þá er launamaður á lágmarkslaunum á Bretlandi um þrjátíu mínútur að vinna sér inn fyrir einum bjór og um 24 mínútur í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Belgíu samkvæmt greiningu Quartz.

Þeir sem fá greidd lágmarkslaun í Georgíu eru lengst að vinna sér fyrir bjórnum af þeim löndum sem voru tekin fyrir hjá Quartz eða 15,1 klukkustund, nærri tvo heila vinnudaga. Fólk á lágmarkslaunum í Bangladesh er næst á eftir, en 13,4 klukkustundir tekur þá að vinna fyrir einum bjór.

Launafólk á lágmarkslaunum í Púertó Ríkó er hinsvegar sneggst að vinna sér inn fyrir einum bjór eða um 12 mínútur. Íbúar Lúxemborgar á lágmarkslaunum eru tæpar 20 mínútur að vinna sér inn fyrir bjórnum.

Í greiningunni er ekki tekið tillit til tekjuskatta í löndunum en fólk á lægstu launum greiðir yfirleitt lágan eða engan tekjuskatt. Þá eru skattar og gjöld á áfengi afar misjafnir milli landa.

Íslendingar á lágmarkslaunum eru 0,8 klukkustundir að safna sér fyrir bjórnum.mynd/quartz





Fleiri fréttir

Sjá meira


×