Innlent

Sjö fastir í tveimur jeppum síðan í gærkvöldi

Vísir
Björgunarsveitarmenn á snjóbíl og tveimur fjallajeppum eru nú á leið upp úr Bárðardal annarsvegar og Kaldbaksdal hinsvegar til móts við sjö manns sem hafa hafst við í tveimur föstum jeppum síðan í gærkvöldi.

Þriggja og níu ára börn eru meðal annarra í bílunum og hefur ekki verið símasamband við fólkið síðan klukkan tíu í gærkvöldi, þegar það óskaði eftir aðstoð björgunarsveitar. Tveir fjallatrukkar voru sendir af stað en annar bilaði og hinn komst ekki lengra vegna ófærðar.

Þegar lögreglan á Akureyri frétti af Gæsluþyrlu í sjúkraflugi fyrir norðan var óskað eftir að hún flygi á vettvang og sækti að minnsta kosti börnin. En þegar hún hafði tekið eldsneyti á Akureyri var farið að snjóa svo mikið að ekkert skyggni var til flugsins inn til fjalla, svo hún flaug suður.

Vitað er nákvæmlega hvar fólkið er og standa vonir til að fyrstu björgunarmennirnir komist til þeirra núna á áttunda tímanum, ef ekkert fer úrskeiðis úr þessu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×