Skoðun

Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands og stjórnarandstöðunnar

Halldóra Ríkharðsdóttir skrifar
Eins og allir vita þá fer ákveðin hringrás í gang vegna bóta öryrkja sem er með 193.000 á mánuði. Tökum dæmi: Húsaleiga, rafmagn og hiti kostar að minnsta kosti 100.000 kr. á mánuði. Það þarf engan stærðfræðing til að sjá að dæmið gengur ekki upp.

Að verða öryrki getur hent hvern sem er. Ef þú ert svo óheppin að lenda í alvarlegu slysi, fá krabbamein eða gigt svo fátt eitt sé nefnt, þá getur þú orðið öryrki. Þetta er staðreynd.

Fátækt er að mínu viti stjórntæki sem getur haldið fólki í heljargreipum kúgunar og hef ég í gegnum árin sannfærst um það. Fátækt fólk er svipt sjálfsvirðingu. Það eru háðir ótal bardagar við kerfið, hvort sem það menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða félagsmálakerfið. Það er falinn kostnaður við að mennta börn, hvort sem það eru árshátíðir, jólaskemmtanir, vettvangsferðir eða svo ótal margt annað skemmtilegt. Fyrir þetta líða börnin sem voru svo óheppin að eiga fátækt foreldri. Það er ósanngjarnt.

Ég er að sjá meira og meira að fólk er að fyllast af vonleysi, depurð og þunglyndi og reiði. Þetta er stórhættuleg þróun sem allir vita nema greinilega ekki ríkisstjórnin okkar sem keppast við að fræða almenning um að það væri búið að leiðrétta frá árinu 2009.

Öryrkinn gónir svo á seðil frá TR og sér enga sem litla breytingu.

Það er hópur af fólki hér í þjóðfélaginu sem á ekki ofaní sig og á og þið hafið alltaf horft í hina áttina hvers vegna veit ég ekki. Þið eruð að leika ykkur með líf öryrkjan á grimmilegan hátt, þið rífið alla sjálfsvirðingu frá fólki eins og veikindin séu ekki nóg. Ráðamenn þjóðarinnar spila með örlög fólks og með þessu áframhaldi verður aldrei friður eingöngu örvænting og tómið eitt.

Þið í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu Íslands vitið þetta en einhvern veginn lítið þið í aðra átt og ég segi við ykkur: Hvert það líf sem týnist frá og með núna hafið þið á ykkar samvisku og það þýðir ekkert að þykjast vita ekki neitt. Fólk er orðið örmagna og í öllum bænum þegið þið um ykkar ráð að hækka krónu hér og lækka krónu þar. Við erum öll jafn dauð. Til öll sem komið að þessum málum skammist ykkar.

Ég hélt að það þyrfti háskólamenntun til að geta stjórna heilu landi en nú veit ég betur, Ég lýsi yfir vantrausti á heila klabbið.

Og að láta það sjást á blaði að við erum c.a. 350.000 manna þjóð og titluð 4. ríkasta land í heiminum og látið síðan spyrjast út hvernig þið farið með elli og öryrkjaþega og líka láglaunafólk. Ég skammast mín á svona stundum að vera íslendingur.




Skoðun

Sjá meira


×