Innlent

Yngri kynslóðir munu fá mun meiri lífeyri

Heimir Már Pétursson skrifar
Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu.
Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu. vísir/gva
Íslenska lífeyriskerfið er með þeim betri innan OECD og jafnar vel kjörum þeirra lægst launuðu þegar kemur að töku lífeyris. Þeir sem eru 35 ára og yngri í dag munu fá mun betri lífeyri en þeir sem er að hefja lífeyristöku nú.

Fjármálaeftirlitið og Landssamband lífeyrissjóða kynntu í morgun niðurstöður fyrstu samanburðarrannsóknar á lífeyriskerfum ríkja Efnahags- og framfarastofnunar, OECD. Í grunninn leiðir rannsóknin í ljós að íslenska lífeyriskerfið stenst vel stefnumarkandi tilmæli OECD.

Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, og einn umsjónarmanna rannsóknarinnar hér á landi er ánægður með niðurstöðurnar.

Þannig að þetta sýnir að okkar kerfi er öflugt og þá sérstaklega sjóðssöfnunin. Það er mikil sjóðssöfnun hér miðað við önnur lönd. Önnur lönd treysta meira á hið opinbera kerfi. Við svosem vissum það en rannsóknin staðfestir það,“ segir Björn.

Þá sýni rannsóknin að samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga virki vel til tekjujöfnunar fyrir þá lægst launuðu og þá sem ekki hafa greitt nægjanlega lengi í lífeyrissjóð þegar kemur að töku lífeyris.

En er þá verið að jafna fólki niðri við fátæktarmörkin, er þetta nægjanlegur lífeyrir sem þessi stóri hópur er að fá?

„Já það sýnir sig að þetta er nægjanlegur lífeyrir miðað við fátæktarmörk. Það er alveg ljóst. Þetta er bara eðli kerfisins hérna að það eru ákveðnir hópar sem  eiga erfitt með þetta. Eins og þeir elstu. Þeir koma inn í lífeyriskerfið þegar það var ekki fullmótað og greiddu ekki af heildarlaunum á þeim tíma þegar kerfið var í uppbyggingu,“ segir Björn.

Hins vegar standa þær kynslóðir sem nú eru 35 ára og yngri og munu greiða að fullu inn í lífeyriskerfið til eftilaunaaldurs mun betur en þær kynslóðir sem nú séu á lífeyri. Þessar yngri kynslóðir muni að líkindum fá einum þriðja meira í lífeyri en einstaklingar sem hófu lífeyristöku árið 2012.

„Þannig að þeir standa mun betur að vígi. Þeir eru auðvitað búnir að vera í fullmótuðu kerfi eins og það var endurbætt 1998 og 1999. Þannig að það eru aðallega þeir sem standa best að vígi. Síðan minkar þessi munur eftir sem ofar dregur í aldurshópunum,“ segir Björn Z. Ásgrímsson.

Nánar verður fjallað um þetta mál í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar og rætt við sérfræðing OECD í málefnum lífeyrissjóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×