Viðskipti innlent

Máli gegn Hraðpeningum vísað frá dómi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Núverandi eigandi Hraðpeninga er erlent félag sem skráð er á Kýpur.
Núverandi eigandi Hraðpeninga er erlent félag sem skráð er á Kýpur. Vísir
Máli sem Sverrir Einar Eiríksson höfðaði gegn Hraðpeningum ehf. og Skorra Rafni Rafnssyni var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag á grundvelli þess að röngum aðila var stefnt í málinu.  

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að stefna hefði átt núverandi eiganda Hraðpeninga, félaginu Jumdon Micro Finance Ltd., en ekki Skorra Rafni.

Sverrir höfðaði málið þar sem hann vildi fá það viðurkennt fyrir dómi að hann væri eigandi 500.000 króna hlutafjár í Hraðpeningum.  

Samkvæmt tilkynningu um stofnun félagsins í desember 2009 kom fram að stofnendur og stjórnarmenn væru þrír, Sverrir og Skorri auk Gísla Rúnars Rafnssonar, hver með 33,333% hlut í félaginu. Í tilkynningunni sagði jafnframt að hlutafjársöfnun væri lokið og allt hlutaféð, 1,5 milljón króna, hafi verið greitt.

Í ársreikningum félagsins fyrir árin 2009 og 2010 kemur fram að Skorri Rafn sé eigandi alls hlutafjár í Hraðpeningum en árið 2011 er áðurnefnt Jumdon Micro Ltd. skráð fyrir öllu hlutafé.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að Sverrir byggi kröfu sína á því að hann sé réttmætur eigandi 500.000 króna hlutar í Hraðpeningum þar sem hann sé skráður fyrir þeim í stofngögnum félagsins.

Hann hafi aldrei samþykkt ráðstöfun fjárins eða afsalað sér rétti til þess og væri því réttmætur eigandi þess. Sverrir telur að Skorri Rafn „hafi misnotað aðstöðu sína með ólögmætum hætti, beitt blekkingum og slegið eign sinni á hlutafjáreign stefnanda og breytt hlutahafaskrá félagsins í samræmi við það.“

Því var hins vegar haldið fram af hálfu Hraðpeninga og Skorra Rafns að Sverrir „hafi ekki staðið við skuldbindingu sína um að greiða hlutafjárloforð í stefnda, Hraðpeningum ehf., í samræmi við undirritun sína þar um í stofnskjölum félagsins og geti hann því ekki talið til réttar yfir hlutafénu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×