Viðskipti innlent

Heimsferðir, JRJ verktakar og Skinney Þinganes verðlaunuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á myndinni eru Brynja Baldursdóttir forstöðumaður viðskiptastýringar og þróunar hjá Creditinfo, Sigurlaug Ómarsdóttir frá JRJ-verktökum, Tómas Gestsson framkvæmdastjóri Heimsferða,  Aðalsteinn Ingólfsson framkvæmdastjóri Skinney-Þinganess og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Á myndinni eru Brynja Baldursdóttir forstöðumaður viðskiptastýringar og þróunar hjá Creditinfo, Sigurlaug Ómarsdóttir frá JRJ-verktökum, Tómas Gestsson framkvæmdastjóri Heimsferða, Aðalsteinn Ingólfsson framkvæmdastjóri Skinney-Þinganess og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Fyrirtækin Heimsferðir, JRJ verktakar og Skinney Þinganes eru framúrskarandi fyrirtæki ársins 2014 að mati Creditinfo. Þau fengu því sérstaka viðurkenningu sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, veitti.

Heimsferðir ehf. hækkuðu sig mest á milli ára en fyrirtækið var í 301. sæti af 464 fyrir árið 2013 en er komið í 133. sæti af 577 fyrirtækjum sem eru á lista Framúrskarandi fyrirtækja. Skinney-Þinganes hf. er efst þeirra fyrirtækja sem koma ný inn á listann. Þá eru JRJ verktakar ehf. efstir í sinni atvinnugrein, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð,  sem þykir erfiðust en í henni er hæst hlutfall fyrirtækja á vanskilaskrá.

Þetta er í fimmta sinn sem Creditinfo gefur út listann. Þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi uppfylla ákveðin skilyrði í rekstri, hafa skilað rekstrarhagnaði þrjú ár í röð, eignir eru metnar á að minnsta kosti 80 milljónir króna og eiginhlutfall er 20% eða hærra.

Fyrirtækin á listanum fyrir árið 2014 eru 577 talsins sem er um 1,7 % af þeim 34 þúsund fyrirtækjum sem skráð eru á Íslandi. 102 fyrirtæki hafa verið á listanum frá upphafi. Fjöldi framúrskarandi fyrirtækja hefur aukist jafnt og þétt frá því listinn var fyrst birtur fyrir fimm árum síðan en þá komust 178 fyrirtæki á lista. Segja má að hagur fyrirtækja á Íslandi fari batnandi með hverju árinu vegna þess að skilyrðin til að komast á listann hafa verið þau sömu frá upphafi.

Nánar um skilyrðin sem fyrirtækin þurfa að uppfylla til að komast á lista:

·       Að hafa skilað ársreikningum til RSK fyrir rekstrarárin 2011-2013

·       Minna en 0,5% líkur á alvarlegum vanskilum

·       Að sýna rekstrarhagnað (EBIT) þrjú ár í röð

·       Að ársniðurstaða sé jákvæð þrjú ár í röð

·       Að eignir séu 80 milljónir kr. eða meira, rekstrarárin 2011-2013

·       Að eigið fjárhlutfall sé 20% eða meira, rekstrarárin 2011-2013

·       Að vera með skráðan framkvæmdastjóra og stjórnamenn í hlutafélagaskrá

·       Að vera virkt fyrirtæki samkvæmt skilgreiningu Creditinfo

 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×