Innlent

Myndavélar settar upp við sundlaugina í Selárdal: „Það eru allir ósáttir“

Birgir Olgeirsson skrifar
Sundlaugin í Selárdal.
Sundlaugin í Selárdal. Friðrik Halldórsson
„Myndavélarnar eru til að benda mönnum á að ef þeir fara ekki eftir reglum þá höfum við upplýsingar um þá,“ segir Ellert Árnason, skrifstofustjóri hjá Vopnafjarðarhreppi, um eftirlitsmyndavélar sem hafa verið settar upp við sundlaugina í Selárdal.

Sundlaugin tilheyrir Vopnafjarðarhreppi og er um tólf kílómetra frá Vopnafjarðarkauptúni. Hún var vígð árið 1950 og var fremur frjáls aðgangur að henni en nú er svo komið að settar hafa verið upp eftirlitsmyndavélar við laugina til að tryggja að enginn fari í hana utan opnunartíma þegar enginn sundlaugarvörður er á vakt. Til stendur að girða laugina af í vor til að tryggja að enginn fari eftirlitslaus í laugina þegar enginn er vörðurinn, þá sérstaklega börn, en borið hafði á umferð utan opnunartíma þar sem áfengi var við hönd.

Hópur kærður fyrir sóðaskap

„Í gegnum tíðina hafa ekki verið nein stór vandamál en það hefur komið fyrir að unglingahópar hafi komið hérna að næturlagi og skilið eftir sig bjórdósir en það er ekki hægt að kalla það sóðaskap,“ segir Ellert en fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því árið 2012 að Vopnafjarðarhreppur hefði kært hóp manna fyrir sóðaskap í sundlauginni í Selárdal. Var aðkoman ljót eftir drykkjulæti hópsins og þurfti að fresta skólasundi í annað sinn á skömmum tíma um haustið 2012.

Mikil óánægja er á Vopnafirði vegna ákvörðunar um að girða laugina af. „Það eru allir ósáttir við að fá ekki að nota hana sem náttúrulaug eins og aðrar náttúrulaugar á landinu,“ segir Ellert en nýlega þurfti að setja upp klórstöð við laugina sem var tugmilljóna framkvæmd og þá bætist annað eins við vegna eftirlitsmyndavéla og girðingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×