Handbolti

Björgvin: Síðasta sem fer hjá þessum gaurum er sjálfstraustið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska handboltalandsliðsins, var ánægður með stigið sem liðið náði í gegn Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakklands í dag.

„Þegar við horfum á leikinn þá erum við sáttir þó við tökum bara einn punkt. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið og æðislegt að sjá íslensku geðveikina komna aftur,“ sagði Björgvin við Vísis eftir leikinn.

„Þetta voru andstæðingarnir sem við þurftum til að komast í gang því þetta er lið sem við þekkjum vel. Þeir eru með sextán leikmenn í heimsklassa og því er gaman að geta haldið í við þá. Sérstaklega eftir það sem hefur á gengið í síðustu tveimur leikjum.“

Björgvin segir auðveldara fyrir liðið að mæta svona sterkum liðum. „Þetta er bara þessi íslenska geðveiki. Þegar hún er til staðar þá getum við mætt öllum liðum. Þegar við spilum við 16 af bestu leikmönnum heims þá höldum við í við þá en þegar við spilum við lakari lið þá dettur tempóið niður,“ sagði Björgvin.

„Við þurfum að reyna að spila okkar leik. Á móti leik eins og Frakklandi þarf að halda einbeitingu en undirbúningurinn var geggjaður. Það var gaman að sjá að við getum þetta, sérstaklega þegar við erum að fara inn í jafn mikilvæga leiki og raun ber vitni.“

Hann segir engan skort á sjálfstrausti í liðinu. „Nei, alls ekki. Ég er með þessum gæjum allan daginn og veit hvað býr í okkur. Það sem fer síðast hjá okkur er sjálfstraustið hjá þessum gaurum og geðveikin og baráttan.“

Næst er það Tékkland: „Það er stórleikurinn í þessu. Við þurfum að vinna hann til að fara áfram. Þessi punktur í dag skilar engu ef við ætlum að tapa fyrir Tékkum. Við þurfum að komast niður eins hratt og við getum,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×