Handbolti

Sérfræðingar sammála: Guðmundur í óþægilegri stöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/eva björk
Fimm sérfræðingar sem danska blaðið BT leitaði til eru sammála um að landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson sé undir pressu eftir erfitt gengi liðsins á HM í Katar til þessa.

Guðmundur sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Hilton-hótelinu í Doha í gær rétt eins og á öðrum frídögum danska landsliðsins. Þar átti hann í „þvinguðum“ orðaskiptum við blaðamenn þegar umræðuefnið barst að danska varnarleiknum.

Guðmundur hefur verið rólegur og yfirvegaður á fundum sínum til þessa en í þetta skiptið þóttu tilsvör hans af öðrum toga. Þótti hann pirraður í svörum sínum við spurningum blaðamanna.

Danir mæta Pólverjum í gríðarlega mikilvægum leik á HM í handbolta í kvöld og vilja alls ekki tapa fleiri stigum en þeir hafa gert í keppninni til þessa.

Sjá einnig: Guðmundur: Hlusta ekki eftir áliti sérfræðinga

Sérfræðingarnir sem BT leitaði til eru sammála um að þetta sé ekki auðveld staða fyrir Guðmund.

„Þetta er ekki sú byrjun sem hann vonaðist eftir,“ sagði Lars Krogh Jeppesen, sérfræðingur DR. „Ég held að þessi varnarleikur sé að halda fyrir honum vöku á næturnar, þó svo að hann viðurkenni það ekki. Við sáum þjálfara sem undir pressu á blaðamannafundinum. Hann brást harkalega við eðlilegum spurningum og virtist eilítið móðgaður.“

Jeppesen segist ekki hrifinn af leikstíl danska liðsins og efast um að liðið komist í undanúrslit mótsins úr þessu. Hann er heldur ekki hrifinn af vörninni sem Guðmundur hefur látið danska liðið spila.

Sjá einnig: Nyegaard: Held að Guðmundur sé hissa

Lars Christiansen, fyrrum hornamaður danska landsliðsins, er sérfræðingur á TV2 og segir að Guðmundur sé óvanur því að þurfa að eyða svo miklum tíma í fjölmiðla og hann hefur þurft að gera á mótinu.

„Allt umstangið í kringum fjölmiðla hefur líklega komið honum á óvart - að það séu svo margir á blaðamannafundunum. Við vorum áður með þjálfara (Ulrik Wilbæk) sem var afar opinn og gaf mikið af sér. Nú erum við með þjálfara sem er afar einbeittur að handboltanum sjálfum.“

Christiansen og félagi hans hjá TV2, Bent Nyegaard, er þó enn vongóður um að liðið komist langt í keppninni enda sé ekkert tapað enn. Ummæli hans og annarra má lesa hér.


Tengdar fréttir

Dagur: Gaman að geta strítt Gumma

Það verður stór stund í sögu íslensks handbolta þegar tvö af stærstu handboltaveldum heims, Þýskaland og Danmörk, mætast á Heimsmeistaramótinu í handbolta í Katar í kvöld. Bæði lið eru þjálfuð af Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×