Handbolti

Guðmundur: Hef ekki upplifað þetta á 25 ára þjálfaraferli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur á blaðamannafundi á Hilton-hótelinu í Doha.
Guðmundur á blaðamannafundi á Hilton-hótelinu í Doha. Vísir/Eva Björk
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolta, hóf blaðamannafund sinn á Hilton-hótelinu í Doha á morgun á alvarlegum nótum.

Danskir fjölmiðlar fjölluðu í gær um meint ósætti danska landsliðsmannsins Kasper Söndergaard við hlutverk sitt í liðinu eftir uppákomu á æfingu liðsins fyrr í vikunni.

Söndergaard var sagður hafa sakað Guðmund um að hafa sýnt sér virðingarleysi en sjálfur sagði leikmaðurinn á Twitter-síðu sinni í gær að það væri alrangt og að hann væri sáttur við hvaða hlutverk sem honum væri úthlutað.

„Kasper er einn af tryggustu leikmönnum liðsins. Hann er liðsmaður og ég er leiður vegna þess fréttaflutnings sem átti sér stað í kringum hann,“ sagði Guðmundur á blaðamannafundi sínum í morgun.

„Ég skil ekki af hverju það voru sagðar fréttir af ósætti sem ekki er til staðar. Það er erfitt að ætla að svara fyrir það. Hann, ég og liðið allt vorum einbeittir að leiknum í gær,“ bætti hann við en Danir unnu Rússa á HM í Katar í gær.

„Ég hef alltaf átt gott samstarf við fjölmiðla en svona lagað hef ég ekki upplifað áður á mínum 25 ára þjálfaraferli. Það er það sem ég hef að segja um þetta mál,“ sagði Guðmundur.

Þjálfarinn sagðist ánægður með margt sem hann sá í leik sinna manna gegn Rússum í gær, sér í lagi sóknarleikinn.

„Ég hef ekki upplifað áður á stórmótum að mæta svo mörkum varnarafbrigðum á einu og sama mótinu. Við höfum spilað gegn 6-0, 5-1, 3-2-1 og 4-2 vörnum en mér fannst að sóknin hafi leyst sitt vel á stórum köflum í leiknum í gær.“

„Varnarleikurinn var líka góður í fyrri hálfleik og það kom kafli þá sem við unnum 8-0. Síðari hálfleikurinn var ekki í sama gæðaflokki en ég er auðvitað fyrist og fremst ánægður með að hafa unnið Rússa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×