Handbolti

Danir slökuðu á í seinni en unnu samt Rússa örugglega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Danska landsliðið undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar vann þriggja marka sigur á Rússlandi, 31-28, í fjórða leik sínum á HM í handbolta í kvöld.

Sigur Dana var öruggur en þeir voru átta mörkum yfir í hálfleiknum, 16-8. Rússar komu til baka í seinni hálfleik en sigur Dana var aldrei í mikilli hættu.

Danir spila úrslitaleik um annað sæti riðilsins á móti Pólverjum í lokaumferð riðilsins á laugardaginn en bæði liðin eru með sex stig eða einu stigi færra en topplið Þjóðverja.

Rasmus Lauge átti frábæran leik með danska liðinu og skoraði níu mörk úr aðeins þrettán skotum.

Danir skoruðu átta síðustu mörk fyrri hálfleiks og breyttu stöðunni úr 8-8 í 16-8 á rúmlega tíu mínútna kafla.

Danir voru 20-12 yfir þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum en rússneska liðið minnkaði muninn hægt og rólega. Munurinn var þrjú mörk í lokin en Rússarnir komust ekki nær en það.

Danir gátu leyft sér að slaka á í seinni í sigri á Rússum en þjálfari liðsins, Guðmundur Guðmundsson, var allt annað en sáttur með það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×