Handbolti

Guðmundur gaf ekki kost á viðtölum | Reiknar með Aroni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Guðmundur íhugull á fundinum í gær.
Guðmundur íhugull á fundinum í gær. Vísir/Eva Björk
Guðmundur Guðmundsson breytti út af venjunni og gaf ekki kost á einstökum viðtölum við fjölmiðla eftir blaðamannafund danska liðsins á Hilton-hótelinu í Doha í morgun.

Hingað til hafa blaðamannafundirnir sjálfir verið stuttir og Guðmundur svo gefið kost á sér í viðtöl við þá fjölmiðla sem þess óska.

„Við spiluðum seint í gærkvöldi og ég var að vinna til fjögur í nótt. Við höfum knappan tíma í undirbúninginn og það er fundur síðdegis með liðinu sem ég þarf nú að undirbúa,“ sagði Guðmundur þegar hann var spurður um málið í morgun.

Danmörk mætir Íslandi í 16-liða úrslitum HM í handbolta annað kvöld en Guðmundur mætir því mörgum af sínum gömlu lærisveinum úr íslenska landsliðinu, sem hann stýrði síðast á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012.

Hann segir þó að það verði ekki erfitt fyrir sig að spila gegn Íslandi á morgun. „Þetta er handboltaleikur. Ég einbeiti mér að handboltanum og því að undirbúa liðið fyrir erfiðan leik. Það geri ég óháð því hver andstæðingurinn er.“

„Við erum að fara að spila við erfiðan andstæðing. Ísland er gott lið og við berum virðingu fyrir því og undirbúum okkur fyrir leikinn eins vel og kostur er.“

Ísland vann Danmörku á æfingaleik í Álaborg í upphafi mánaðarins en Guðmundur sagði að það hafi gefið mönnum efni til umhugsunar. „Við spiluðum ekki vel í þeim leik - hvorki í vörn né sókn. Við höfum síðan þá bætt okkur sem lið og erum betri nú en í byrjun janúar.“

Guðmundur var spurður um Aron Pálmarsson sem missti af leik Íslands gegn Egyptalandi í gær þar sem hann var með einkenni heilahristings eftir höfuðhögg sem hann fékk í leiknum gegn Tékklandi fyrr í vikunni.

„Ég fæ ekkert meira að vita en aðrir um Aron,“ sagði hann og brosti. „En við gerum ráð fyrir því að hann muni spila leikinn og undirbúum okkur í samræmi við það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×