Viðskipti innlent

Pétur Thor nýr sölu- og markaðsstjóri Freyju

Stefán Árni Pálsson skrifar
Pétur starfaði áður hjá Ölgerðinni sem sölu- og rekstrarstjóri.
Pétur starfaði áður hjá Ölgerðinni sem sölu- og rekstrarstjóri.
Pétur Thor Gunnarsson hefur verið ráðinn sölu- og markaðsstjóri hjá Freyju. Pétur starfaði áður hjá Ölgerðinni sem sölu- og rekstrarstjóri.

Pétur Thor er alþjóðamarkaðsfræðingur að mennt og býr yfir gríðarlegri starfsreynslu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Pétur starfað hálfa ævina hjá Ölgerðinni, en þar starfaði hann í rúm átján ár við hin ýmsu störf, nú síðast sem sölu- og rekstrarstjóri á matvörusviði.

Í gegnum árin hefur Pétur komið að þjónustu við viðskiptavini á öllum stigum og má þar nefna áfyllingar í verslunum, sölumennsku, sölustjórnun, áætlunargerð og umsjón lykilviðskiptavina.

Pétur er spenntur fyrir nýjum áskorunum.

„Freyja er fyrirtæki í sókn með frábærar vörur sem margar hverjar hafa verið mínar uppáhaldsvörur frá því í barnæsku. Hundrað ára afmæli Freyju er á næsta leiti, eigendurnir eru metnaðarfullir og mikill hugur er í mönnum að ná langt og því er það einstaklega spennandi tækifæri að taka þátt í þessari sókn. Þetta er algjör draumur maður, eins og þar segir,“ segir Pétur glaður í bragði.

Pétur er með B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er giftur Erlu Rós Gylfadóttur hugbúnaðarsérfræðingi hjá Orkuveitunni og eiga þau þrjú börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×