Viðskipti innlent

Spá lækkun neysluverðs í janúar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
„Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,9% í janúarmánuði frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir hjaðnar verðbólga úr 0,8% í 0,6%, og er þar með áfram undir neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.“

Þetta kemur fram í nýrri spá Greiningardeildar Íslandsbanka. Rætist hún hefur verðbólga ekki verið minni frá því í desember 1994.

Í spánni segir að verðbólguþrýstingur sé með minnsta móti til skemmri tíma litið og von sé á mjög lágum verðbólgutölum næstu mánuðina.

„Við teljum raunar að verðbólgan muni verða undir neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á fyrri hluta ársins, og undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu út þetta ár.“

Í kjölfar þess spáir deildin aukinni verðbólgu með auknum snúningshraða hjóla atvinnulífsins.

Þá telur greiningardeildin að breytingar á opinberum gjöldum um áramótin, hafi haft veruleg áhrif á vísitölu neysluverðs. Mest séu þau á raftæki vegna lækkunar á vörugjöldum og hinsvegar á matvörur þar sem hækkun á neðra þrepi VSK úr sjö í ellefu prósent vegur til tæplega fjögurra prósenta verðhækkunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×