Handbolti

Patrekur: Margt sérstakt í dómgæslunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari austurríska landsliðsins, var vitanlega ánægður með sigur sinna manna á Bosníu í B-riðli HM í Katar í kvöld. Liðið er því komið með sín fyrstu stig í riðlinum eftir naumt tap gegn sterku liði Króatíu í gær.

„Þetta var frábær leikur hjá mínum mönnum. Við byrjuðum betur en gegn Króötum og sköpuðum okkur fullt af færum en því miður var markvörðurinn þeirra í stuði,“ sagði hann við Arnar Björnsson eftir leikinn í kvöld en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

„Við vorum svo mjög þéttir í síðari hálfleik og komumst fimm mörkum yfir. Þá varð ég aðeins rólegari,“ sagði hann.

Bosníumenn skoruðu aðeins fjögur mörk á fyrstu 25 mínútum síðari hálfleiks en staðan að loknum þess fyrri var 12-12. „Við vorum búnir að kortleggja þá og það var ekki mikið sem kom á óvart. Vinnslan var mjög góð hjá okkur og náði ég að dreifa álaginu hjá okkur enda vissi ég að leikurinn gegn Króötum kostaði sitt. Ég er sáttur.“

Dómararnir í kvöld voru þeir sömu og dæmdu leik Íslands og Svíþjóðar í gær og var margt furðulegt við dómgæsluna í kvöld.

„Já, voru þeir frá Brasilíu? Ég vissi það ekki. En svona var þetta líka gegn Króatíu og margt sérstakt þar. Það hallaði á okkur í seinni hálfleik í dómgæslunni og það gerir sigurinn enn sætari.“

„Þessi sigur gefur okkur tvö stig og ekkert meira. Leikmenn verða ánægðir inni í klefa en næst hefst undirbúningur fyrir erfiðan leik gegn Túnis.“


Tengdar fréttir

Mikilvægur sigur hjá Patreki og félögum

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska handboltalandsliðinu náðu í sín fyrstu stig á HM í Katar þegar þeir lögðu Bosníu að velli, 23-21, í hörkuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×