Skoðun

Fjölskyldan og framtíðin

Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar

Nú er lokið afmælisári Alþjóðaárs fjölskyldunnar, en á árinu 2014 voru 20 ár liðin frá því að það var útnefnt af Sameinuðu þjóðunum. Þegar litið er til þeirra einkunnarorða sem árinu voru valin „Fjölskyldan, úrræði og skyldur í breytilegum heimi“ þá virðist nokkuð ljóst að áhyggjur hafi  verið uppi  vegna stöðu og framtíðar fjölskyldunnar. Á þeim tíma skildi maður það svo að tilgangurinn væri að hugað yrði að stöðu og styrkingu fjölskyldunnar og hún galvaniseruð til þess að þola og standast áhrif ýmiskonar þjóðfélagsmeina sem framtíðin gæti borið í skauti sér og ógnað gætu fjölskylduböndum og þar með velferð meðlima fjölskyldunnar, í  mörgum tilfellum sérstaklega þó velferð barnanna.



Spurningin í dag er því þessi,  getum við, sem samfélag, sagt að við höfum á síðustu tuttugu árum gengið til góðs í málefnum fjölskyldunnar? Þegar reynt er að svara þessari spurningu blasir fyrst við hin háa skilnaðartíðni sem bendir til þess að fjölskyldan eigi undir högg að sækja.  Meðal skilnaðatíðni síðust 11 ára er samkv. tölum Hagstofunnar 545 skilnaðir fyrir hverjar 1000 hjónavígslur.



Ástæður þessarar háu tíðni geta verið ýmsar eins og að stofnað sé til hjónabands á röngum forsendum. Einnig má benda á skrif dr. Sigrúnar Júlíusdóttur prófessors við HÍ um fjölskyldurannsóknir sem sýna að fæðing fyrsta barns geti verið ávísun á skilnað. Niðurstöður nýlegra rannsókna sem hún nefnir benda til að að 60 – 90% foreldra upplifi minni ánægju í sambandinu fyrstu þrjú árin eftir fæðingu barns.



Hver er staða fjölskyldunnar á Íslandi í dag

Fyrir okkur öllum  er sú staðreynd augljós að sérhvert barn á sér foreldra sem bera ábyrgð á nýkviknuðu lífi. Sérhvert barn verður undir venjulegum kringumstæðum hluti af fjölskyldu og það virðist eðlilegur og  náttúrulegur réttur hvers barns að alast upp í faðmi elskandi foreldra og líða vel. Eða eins og vitur kona sagði einhverju sinni:  



„Aðeins það samfélag getur kallast gott samfélag þar sem börnum líður vel“.  



Ég kannast ekki við að reynt hafi verið að meta almenna vellíðan barna á Íslandi. Í Bretlandi sem er vestrænt samfélag sambærilegt við okkar hefur dr. Tessa Livingstone, barnasálfræðingur og höfundur verkefnisins „Child of Our Time“ skoðað einmitt þetta  og komist að þeirri niðurstöðu að skefjalaus efnishyggja og mikil vinna foreldra utan heimilis standi velferð barna í Bretlandi fyrir þrifum. Það kæmi ekki á óvart að hægt væri að yfirfæra þessa niðurstöðu yfir á íslenskt samfélag.  



Í grein í Fréttablaðinu 14. janúar síðastliðinn nefnir Þórey Guðmundsdóttir annan vanda og vísar í fyrrv. umboðsmann barna í Noregi þar sem hann segir að í framtíðinni megi búsat við að norska þjóðin skiptist í þrennt  



1) Þá einstaklinga sem ólust upp hjá foreldrum sem bjuggu saman bernsku og æskuár barnanna  



2) Þá einstaklinga  sem ólust upp við að búa á tveimur heimilum fráskilinna  foreldranna  til skiptis og samstarf foreldranna  viðunandi. Möguleg afleiðing: börnin eiga erfitt með rótfestu og erfitt með að tengjast tilfinningaböndum  



3) Þá einstaklinga sem ólust upp við að ganga í gegnum langvarandi og illskeyttar deilur foreldra og þurftu að búa á tveimur stöðum voru þvinguð og/eða meidd.



Afleiðing:  Börn sem ganga í gegnum slíkt munu ekki vera fær um að lifa svokölluðu eðlilegu lífi. Þau munu vera hrjáð af álagssjúkdómum og andlegum örðugleikum.

Í  framhaldi af þessum upplýsingum er rétt að vekja athygli á grein sem birtist á mbl.is fyrir stuttu þar sem greint var frá því  að í Reykjavík hafi á síðustu 4 árum hafi 35 börn verið tekin frá foreldrum sem að sjálfsögðu er algert neyðarúrræði. Þetta er líklega alvarlegasta útgáfan af því sem börn þurfa að ganga í gegnum.



Samkvæmt tölum Hagstofunnar alast 21,6% íslenskra barna  upp hjá einstæðum mæðrum, þjóðfélagshópi sem býr við knöppustu kjörin í þjóðfélaginu. Nær helmingur barna sem eru til skoðunar hjá barnaverndar nefndum landsins eru einmitt börn sem alast upp við þessar aðstæður og  38% umsókna á meðferðarheimili eru fyrir börn einstæðra mæðra. Þessar tölur er að finna í viðtali við Pál Ólafsson og Oktavíu Guðmundsdóttur í Fréttablaðinu 28. jan. 2014.  



Í þessu sambandi má einnig benda á að ásókn í þjónustu Barna og unglingageðdeildar er í þeim mæli sem stofnunin ræður ekki við og biðlistar myndast. Óöryggi sem skapast í kjölfar deilna og ofbeldis í kjölfar erfiðra skilnaða hlýtur að kalla fram kvíða og og aðra sálræna og andlega kvilla. Það þarf ekki vitnanna við að slík líðan dregur úr þrótti, lífsgleði og í versta falli lífslöngun. Spurningin er hvort uppspretta áfengis og vímuefnaneyslu ungmenna liggi ekki að einhverju leyti í þeim aðstæðum sem hér hefur verið lýst og hluti af lausn þeirra mála liggi í styrkingu fjölskyldunnar. Neysla áfengis og vímuefna er stóralvarlegt þjóðfélags vandamál og fréttir síðustu daga herma að þriggja mánaða bið sé eftir plássi hjá SÁÁ.  Það er löng bið fyrir þá sem langt eru leiddir.



Gagnvart hjónabandinu virðist vera í gangi ákveðið virðingarleysi við þær skuldbingingar sem hjónabandið felur í sér og þeir sem ganga í hjónaband gangast undir. Þetta er alvarleg ógnun við samfélagið og framtíð þess. Ef haldið verður áfram eins og verið getur það þýtt það að óbornar kynslóðir munu ekki gera sér grein fyrir gildi varanlegra fjölskyldubanda fyrir heilbrigt fjölskyldu- og samfélagslíf.  Andúð á hverskonar ábyrgð og óttinn við að takast á hendur raunverulegar skuldbindingar gagnvart öðrum eykst í takt við innihaldslausa lífsnautnastefnu.



Hvað er til ráða?

Því  má svara með tveimur orðum FRÆÐSLA og ÞJÁLFUN.  Á síðasta ári  vann hópur unglinga í Giljaskóla á Akureyri  verkefni um kynlíf unglinga.  Niðurstaða þeirra var að unglingar á Íslandi hæfu of snemma að stunda kynlíf.  Þetta kemur heim og saman við rannsóknir sem sýna að unglingar á Íslandi byrji að lifa kynlífi umtalsvert fyrr en unglingar í nálægum löndum.  Þetta sýna niðurstöður Sóleyjar Bender frá 1994 og rannsókn Höllu Ólafar Jónsdóttur frá 2012. Rannsóknin frá 1994 sýndi að börn hófu að lifa kynlífi allt niður í 15 ára og 4 mánaða. Rannsóknin frá 2012 sýnir að aldursmarkið hefur færst umtalsvert neðar eða niður í 13 ár og 9 mánuði (Kynhegðun unglinga á Íslandi, 2012, Halla Ólöf Jónsdóttir bls. 26) Eitt af því sem sumir skólar hafa beitt til að hafa áhrif á þessa þróun er notkun forvarnarverkefnisins Hugsað um barn og til að fyrirbyggja ótímabærar þunganir.



Það að mjög ungar stúlkur eignist börn hefur verið sett í samband við auknar líkur á að taka ekki þátt á almennum vinnumarkaði á lífsleiðinni. Slíku fylgir einnig auknar líkur á að dætur unglingsstúlkna verði mæður snemma. Ungar mæður eru í mun meiri áhættu að verða fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þegar að foreldrar eru mjög ungir eru hverfandi líkur á að þeir ali upp barnið saman.



Það er vart á færi mjög ungs fólks að ala upp börn. Fjöldi foreldra sem náð hafa meðalaldri foreldra standast ekki undir kröfum foreldrahlutverksins.



Tímamótarannsóknin ACE STUDY var unnin árin 1995–1997. Þátttakendur voru 17.000. Rannsóknin sýnir ef að stúlka elst upp á heimili þar sem foreldrum tekst ekki að veita uppeldisvænar aðstæður eru 500% meiri líkur á að hún verði fornarlamb heimilisofbeldis á fullorðins árum og 900% meiri líkur á að hún verði fyrir nauðgun.

 



Heilbrigðis- og félagsforvarnarverkefnið „Hugsað um barn“ er byggt á niðurstöðum rannsókna Dr. Min Wang, prófessors við Háskólann í Maryland. Í rannsóknunum var staðfest að HUB  geti gegnt lykilhlutverki í að minnka tíðni unglingaþungana ásamt dýrmætri kennslu í foreldrafærni sem nýtist síðar á ævinni.



Það þarf að fræða ungt fólk um hjónabandið og undirbúninginn undir það þannig að um sé að ræða raunverulegt val  á lífsförunaut  en ekki að einstaklingurinn detti  inn í hjónaband eða parasamband sem byggir á tilviljun eða skyndikynnum í stað meðvitaðs vals á einstaklingi með vandaðan persónuleika og heilbrigða lífssýn. Í indverskri speki segir að meðan leitað sé að lífsförunaut skuli maður hafa augun gal opin en loka þeim til hálfs þegar ákvörðun hefur verið tekin. Því miður virðist  í hinum íslenska veruleika  þessu hugsanlega verið snúið á haus.



Það þarf að gera ungu fólki grein fyrir að hjónabandi eða parasambandi fylgir ábyrgð og að slíkt samband er undirstaða að heimili sem aftur er hornsteinn  samfélagsins. Það þarf að gera unga fólkinu grein fyrir hættunum sem ógna hjónabandinu. Það er algerlega nauðsynlegt fyrir einstaklinga sem stofna til hjónabands eða hefja sambúð að þekkja hætturnar og hafa hugmynd um hvernig hægt er að bregðast við þeim. Að vera heiðarlegur og heilsteyptur í hjónabandi og góður uppalandi er ekki meðfætt. Áður fyrr var þetta ekki svo mikið áhyggjuefni því unga fólkið lærði í smiðju stórfjölskyldu  þeirra tíma þar sem gjarnan bjuggu saman þrjár kynslóðir. Í dag er samfélags- og fjölskyldumynstrið gjörbreytt án þess að „úrræði og skyldur fjölskyldunnar í breytilegum heimi“ hafi verið endurskilgreind á síðustu 20 árum, velferð fjölskyldunnar til framdráttar.



Lokaorð

Ef við erum sammála um skilgreininguna að  „Aðeins það samfélag geti kallast gott samfélag þar sem börnum líður vel“  þá þurfum við að svara því hvort íslenskt samfélag standist þá skilgreiningu og ef ekki ætlum við þá að gera eitthvað í því.




Skoðun

Sjá meira


×