Viðskipti innlent

Segir rekstrarstöðu bakaría hafa versnað síðustu ár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Már Guðjónsson er bakarameistari í Bernhöftsbakaríi.
Sigurður Már Guðjónsson er bakarameistari í Bernhöftsbakaríi.
Sigurður Már Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi, segir að hann hafi fengið fullt af nýjum viðskiptavinum um helgina þrátt fyrir að rúnnstykkin hafi hækkað um 30 krónur um áramótin. Fólk átti sig einfaldlega á því að það sé sanngjarnt verð.

Vísir greindi frá því í gær að rúnnstykkin í bakaríinu hefðu hækkað í verði um áramótin. Undanfarin tíu ár hafa þau kostað 50 krónur en kosta nú 80 krónur.

Sigurður bendir á í þessu samhengi að rekstrarstaða bakaría hafi versnað mjög á síðustu árum og hefur bakaríum á landinu fækkað um meira en þrjátíu frá árinu 1984.

Tilkynning til viðskiptavina Bernhöftsbakarís.
„Þetta er auðvitað áhyggjuefni og er í rauninni verst fyrir fólkið úti á landi. Það lokuðu til að mynda tvö bakarí nú um áramótin, annað í Vestmannaeyjum og hitt í Hveragerði. Brauðneysla hefur samt ekkert minnkað og sést best á því að á hverju ári eru flutt inn 1800 tonn af frosnu brauði og deigi,“ segir Sigurður.

Hann segir að sala á brauðmeti hafi í auknum mæli færst inn í stórmarkaði og á bensínstöðvar auk þess sem að veitingahús kaupi mikið af frosnu brauði og deigi.

„Fækkun bakaría er verst fyrir neytandann. Það eru til dæmis bæir úti á landi þar sem er ekkert bakarí og fólk þarf að panta kökur fyrir veislur og fá sendar um langan veg. Þá er mikil ásókn í að læra bakarann en því miður veldur fækkun bakaría því að nemar komast ekki á samning.“

Rekstrarkostnaður bakaría hefur svo aukist mjög eftir hrun og segir Sigurður að hann borgi tvöfalt meira fyrir hveiti í dag en áður.

Aðspurður hvort að lægri álagning á sykraðar vörur muni hafa áhrif á verðlag svarar Sigurður að eitthvað af bakkelsi muni líklegast lækka í verði í Bernhöftsbakaríi.


Tengdar fréttir

Rúnnstykkin hækka um 30 krónur

Rúnnstykkin í Bernhöftsbakaríi í Bergstaðastræti hafa síðastliðin 10 ár kostað 50 krónur en á því varð breyting nú um áramótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×