Handbolti

Dramatískur sigur Dana gegn Svíum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Guðmundsson ætlar með Dani alla leið á HM.
Guðmundur Guðmundsson ætlar með Dani alla leið á HM. vísir/getty
Danir lögðu Svía, 24-23, í vináttuleik í handbolta í kvöld sem fram fór í Malmö Arena í Svíþjóð, en Svíar eru einir af mótherjum Íslands á HM í Katar.

Leikurinn var æsispennandi allan tímann, en staðan í hálfleik var 11-10 fyrir heimamenn. Jafnt var nánast á öllum tölum.

Sama spennan var í seinni hálfleik þar sem liðin skiptust á að vera með forystuna, en Danir náðu í fyrsta skipti tveggja marka forystu, 20-18, þegar tíu mínútur voru eftir.

Svíar svöruðu því með 5-2 kafla og voru allt í einu komnir yfir, 23-22, þegar þrjár mínútur voru eftir, en þá tók Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Danmerkur, leikhlé.

Mikkel Hansen, sem fór á kostum í liði Dana, jafnaði metin í 23-23, og einum færri í vörninni unnu Danirnir boltann og skoraði Hans Lindberg sigurmarkið þegar 20 sekúndur voru eftir, 24-23.

Guðmundur leyfði leikmönnum á borð við Casper U. Mortensen, Michael Damgaard og Nicolaj Markussen að spreyta sig í kvöld, en það voru stórskytturnar í báðum liðum; Kim Andersson og Mikkel Hansen sem stálu senunni.

Ísland mætir báðum þessum þjóðum á fjögurra landa móti sem hefst á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×