Handbolti

Sigurbergur: Var afslappaðari í kvöld

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Sigurbergur Sveinsson í leiknum gegn Þýskalandi.
Sigurbergur Sveinsson í leiknum gegn Þýskalandi. vísir/ernir
„Mér leið betur í dag en í gær. Það þurfti einn leik til að hrista úr sér jólin og áramótin,“ sagði Sigurbergur Sveinsson sem átti góðan leik fyrir Ísland í kvöld.

„Við höfum náð fáum æfingum og mér leið einfaldlega betur í kvöld. Þetta var aðallega hugarfarið í gær og mér leið ekkert sérstaklega vel yfir þessu. Ég var afslappaðari í kvöld og lét leikinn koma til mín. Það var betra flæði í þessu.

„Þetta er skref hjá okkur. Þetta var betra í dag en í gær og vonandi verður þetta svona hjá okkur þangað til við komum til Katar,“ sagði Sigurbergur sem átti frábæra innkomu undir lokin á leiknum eftir stutta hvíld.

„Það var gott að fá að pústa aðeins og koma aftur inn á. Ég náði að setjast á bekkinn og núllstilla þetta aðeins. Svo fékk ég góð færi. Lexi (Alexander Petersson) dregur mikið til sín.

„Það er mikilvægt að geta nýtt breiddina og sérstaklega á svona móti eins og við erum að fara á. Það eru margir leikir á skömmum tíma og eins og handbolti er í dag þá ertu ekkert að fara að spila þetta á sjö, átta mönnum. Það er alveg á hreinu,“ sagði Sigurbergur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×