Formúla 1

Ferrari, Red Bull og McLaren vilja frjálsa vélarhönnun

Finnur Thorlacius skrifar
Keppnisbíll Mercedes Benz í Formúlu 1 og ökumenn þeirra á síðasta keppnistímabili.
Keppnisbíll Mercedes Benz í Formúlu 1 og ökumenn þeirra á síðasta keppnistímabili.
Reglurnar í Formúlu 1 kappakstursseríunni eru margar og sumar ansi stífar. Ein þeirra er sú að liðin sem eiga þar rétt á keppni mega ekki breyta vélum sínum fyrir næsta ár og var það gert til að halda niður kostnaði liðanna.

Vélarnar eru V6 með forþjöppum og rafmagnsmótorum og eftir að liðin höfðu öll þróað slíkar vélar fyrir síðasta keppnistímabil var meiningin að þannig ætti þær að vera óbreyttar fyrir næsta keppnisár einnig.

Þetta eru Ferrari, Red Bull og McLaren liðin ósátt við þar sem Mercedes Benz tókst að þróa sína vél svo vel að keppnisbílar þeirra höfðu algera yfirburði yfir önnur lið í keppninni. Mercedes Benz vann allar nema 3 keppnir síðasta keppnistímabils og náði á pall í öllum keppnum þess.

Þannig vilja þau ekki hafa næsta tímabil og tækju margir undir að það væri nú ekki æskilegt eitt ár enn. Mercedes Benz segir hinsvegar að ef reglunum verður breytt fyrir næsta tímabil muni það kosta liðin óheyrilegt fé.

Hvort þessum þremur liðum verður ágengt í beiðni sinni verður tíminn einn að leiða í ljós, en óspennandi keppnir gera lítið fyrir keppnina og áhorfendur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×