Innlent

Ætla að græða 90.000 hektara lands

Svavar Hávarðsson skrifar
Frá því að Hekluskógaverkefnið hófst fyrir um átta árum hafa 2,3 milljónir trjáplantna verið gróðursettar á um 1.200 hekturum lands í nágrenni Heklu. Grundvöllur verkefnisins er víðtækt samstarf einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og hins opinbera. Framtíðarsýnin eru landbætur á 90.000 hektara landsvæði sem slær upp undir eitt prósent af eyjunni Íslandi.

Aldargömul hugmynd

Hreinn Óskarsson, verkefnisstjóri og skógarvörður á Suðurlandi, segir að tilurð verkefnisins byggi á hugmyndum frumherja í landgræðslu og skógrækt sem komu fram svo snemma sem um aldamótin 1900 - eða hvernig stöðva mætti sandfokið sem þá strax var orðið hvimleitt vandamál. Danir kynntu hér hugmyndir um nýtingu trjábelta í þessum tilgangi, svo dæmi sé nefnt. Svo dúraði um áratuga skeið eða þangað til að Úlfar Óskarsson, skógfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, „dustaði rykið“ af þessum hugmyndum en hann hafði unnið að rannsóknum á ræktun birkis á vikrum í nágrenni Heklu. Nefnd innan Landgræðslunnar fóstraði verkefnið í nokkur ár en þá var ákveðið að fá alla hlutaðeigandi að verkefninu - ríkisstofnanir, Landbúnaðarháskólann, skógræktarfélög og ekki síst landeigendur sem lykilmenn enda eigendur að þriðjungi þess lands sem síðar var skilgreint innan verkefnisins. Rétt fyrir kosningar 2007 skrifaði þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, undir samning við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins undir samning til tíu ára þar sem átti að veita um 50 milljónum króna til verkefnisins á ári.

„Það var lagt upp með að þetta tæki 30 til 40 ár að koma upp trjálundum sem nú eru orðnir 850 talsins,“ segir Hreinn og vísar til þess að aldrei hefur staðið til að rækta alla 90.000 hektarana sem Hekluskógaverkefnið nær til.

Horft aftur til 1920

Verkefnið er því samansett úr þremur skrefum, eða þrepum í tíma. Fyrst að stöðva sandfok og græða upp illa farið land til að bæta skilyrði fyrir trjágróður; gróðursetja birki ásamt fleiri tegundum í lundi sem síðan geta sáð sér út á nokkrum áratugum yfir allt svæðið.

„Þetta hefur sannað sig, t.d. í Þórsmörk en litið var til árangurs þar í skipulagningu Hekluskógaverkefnisins. Í Þórsmörk, strax árið 1920 og áratugina á eftir, var lagt upp með þessar sömu hugmyndir og eins og menn þekkja er það svæði nú þakið skógi. Eins má nefna Vaglaskóg, Hallormsstaðaskóg og Ásbyrgi í þessu samhengi,“ segir Hreinn. Árangur er þegar umtalsverður og nú sjást birkireitir spretta upp þar sem fyrir 10 til 20 árum var örfoka land. Þegar er merkjanlegt að dregið hafi úr sandfoki, þrátt fyrir að átta ár marki lítið annað en fyrstu skrefin í langtímaverkefni eins og þessu.

„Það má segja að 60.000 hektarar séu undir beint í verkefninu - svæðið sem á að vinna á. Hinir 30.000 hektararnir eru svæði þar sem fyrir er birkiskógur eða annað. Af því svæði sem er undir erum við þegar búin að vinna mismikið á tvö til þrjú þúsund hekturum, bæði með uppgræðslu og gróðursetningu. Það er ágætur árangur af þessu risastóra svæði,“ bætir Hreinn við.

Fastur í sandskafli

Um 70% þeirra 90.000 hektara sem Hekluskógaverkefnið nær til var lítið gróið land og á hluta þess sandfok og mikið rof. Hreinn segir að víðtækt samstarf sé lykilatriði árangurs og að 205 landeigendur séu þátttakendur. Hafa þeir síðan 2008 gróðursett 800.000 plöntur. Sumir hafa lokið gróðursetningu í sín lönd, aðrir eru skemmra á veg komnir enda eigendur að allt að 700 hekturum þeir stærstu. Þessir aðilar fá plönturnar í styrk til að gróðursetja í sín lönd, en allt annað er unnið í þeirra tíma og á þeirra reikning.

„Árangurinn hefur vakið athygli. Ég veit til þess að innan umhverfisráðuneytisins eru hugmyndir um að taka fleiri svæði inn í öðrum landshlutum. Mývatnssveit hefur verið nefnd, eins Haukadalsheiðin og jafnvel Þorlákshafnarsandur,“ segir Hreinn og rifjar upp að áður en áður en hafið var að græða upp sandinn í kringum Þorlákshöfn var ekki óalgengt að menn festu bíla sína í sandsköflum í nágrenni bæjarins.

Hekla verði til friðs

Hreinn segir að verkefnið hafi notið mikillar velvildar allt frá upphafi, en þó verður að viðurkennast að spurningar vakna um einn öflugan óvin sem fyrir er á svæðinu og er reyndar tilbúinn til að láta í sér heyra eins og reglulega síðustu aldir.

„Þetta er á réttri leið, og vonandi verður Hekla, og önnur eldfjöll, til friðs,“ spurður hvort Hekla gamla geti ekki skotið verkefninu á upphafsreit á stuttum tíma. „Langflest Heklugosin, reyndar, hafa sent frá sér öskuna fyrstu klukkutímana og þekur ekki stór svæði.

Ef það breytist ekki þá er aðeins hluti af svæðinu líklegt til að bera skaða af. Það eru litlar líkur á skemmdum um víðfeðmt svæði við eldfjallið,“ segir Hreinn og bætir við í samhengi að hugmyndir um nýtingu svæðisins ef allt gengur að óskum við uppgræðslu sé ljóst að næstu áratugina verði svæðið friðað. Eftir það séu það komandi kynslóðir sem munu ákveða hvað gert verður við svæðið; hvort hluti landsins verður tekinn til annarrar ræktunar, t.d. skógrækt. Eins muni landið þola beit betur en annars væri ef slík nýting verður ofan á. Hins vegar sé aðallega um jarðvegsrækt að ræða til lengri framtíðar litið.

Fræ tínd í kirkjugörðum

Markvert atriði í Hekluskógaverkefninu er nýting áburðar. Sökum niðurskurðar á fjárveitingum til verkefnisins undanfarin ár hefur litlu verið varið til kaupa á innfluttum tilbúnum áburði og sáningar grasa. Megin áherslan hefur verið lögð á að nýta innlent kjötmjöl, en árangur þeirrar áburðargjafar er eftirtektarverður og afar góður. Virðist nýting kjötmjölsins vera hagkvæmari lausn, bæði hvað varðar árangur í uppgræðslu sem og fjárhagslega en undanfarin ár hefur verið dreift 1.400 tonnum af kjötmjöli - ekki síst á erfiðustu vikrunum sem ræktaðir eru.

Íslenska birkið er í aðalhlutverki við að rækta upp svæðið, þó tegundir víðis komi vissulega einnig við sögu, og reyniviður sem hentar fuglum vel. „Ástæðan fyrir því fyrst og síðast að birki er notað er hversu öflugt það er að sá sér út, fyrir utan hvað það er harðgert. Það myndar fræ snemma og auðvelt að nálgast fræ. Við erum farin að sjá á 15 til 20 ára gömlum birkireitum að mikil sáning er þar í kring, og því mjög árangursrík leið til að ná upp trjágróðri á þessu svæði,“ segir Hreinn og bætir við að víða er leitað fanga fyrir þennan skóg framtíðarinnar.

Hreinn Óskarsson
„Sjálfboðastarfið er svo gríðarlega mikilvægt, og verður vart metið til fjár. Styrkir frá ýmsum aðilum skipta líka gríðarlega miklu máli. Það má nefna styrkinn í því að almenningur tínir fyrir okkur birkifræið. Skólarnir hérna á svæðinu hafa komið og tínt á Hekluskógasvæðinu. Svo er almenningur að færa okkur fræ af birkitrjánum heiman frá sér, og jafnvel úr kirkjugörðunum í Reykjavík,“ segir Hreinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×