„Maður spyr sig hvað reikningarnir verða háir frá Matvælastofnun eða þessum eftirlitsdýralæknum á eftir, okkur finnst nú nóg borgað fyrir,“ segir Daníel. Hann spyr einnig hvort sektargreiðslur muni hækka sem honum þyki bæði of háar og oft ósanngjarnar. Hann segir að réttast væri að bændur myndu sjálfir sjá um slátranir og selja kjöt beint frá býli og losna þá við afskipti Matvælastofnunar.
Ekki verður hægt að slátra dýrum á meðan verkfallið stendur þar sem dýralæknar þurfa að vera viðstaddir slátranir. Daníel segir að verkfallið hafi ekki strax áhrif á kúabændur enda sé svigrúmið sem þeir hafi rýmra en annarra bænda til að slátra afurðum sínum. „Ég ætlaði nú að fara að senda til slátrunar eftir tvær vikur en það er spurning hvernig það fer,“ segir Daníel.
Segir stöðuna „algjöran hrylling“
Verst er staðan á kjúklingabúum. Matthías Hannes Guðmundsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs sem selja kjúkling undir merkjum Holta, segir stöðuna „algjöran hrylling“. Hann segir að búið sé að sækja um undanþágu frá verkfallinu svo hægt verði að slátra en hann býst við svari fyrir lok dagsins.
Sjá einnig: Búist við kjötskorti
Matthías vonast til að hægt verði að senda um sjö þúsund fugla til slátrunar næsta miðvikudag. Gangi það ekki eftir fari að verða þröngt um fuglana og í versta falli þurfi að aflífa alla kjúklinga í kjúklingabúinu með gasi. „Okkur finnst alveg afleitt að þurfa að drepa heilbrigðan fugl í húsunum,“ segir Matthías enda sé það sóun á verðmætum.
Svínabændur lenda í vandræðum í lok næstu viku
„Þetta er grafalvarleg staða sem komin er upp,“ segir Hörður Harðarson, formaður Félags svínabænda. Hann segir að svínabændur og svínin sjálf, muni fara að finna fyrir áhrifum verkfallsins í lok næstu viku fáist ekki undanþágur til slátrunar.

„Það er jaðrar nú við að vera „krimminalt“ ef ekki fást undanþágur og dýrin verða látin kveljast í miklum þrengslum þar sem þau eru að skaða sjálf sig. Ég held að það hafi nú allir góðan skilning að dýrin líði ekki fyrir þær aðgerðir sem fyrst og fremst eru komnar til af mannanna völdum,“ segir Hörður.
Hann segir að fari félagsmenn Starfsgreinasambandsins einnig í verkfall muni það hafa víðtæk áhrif á bændur. Atkvæðagreiðsla um verkfall hjá Starfsgreinasambandinu lýkur á miðnætti í kvöld. Félagsmenn þeirra starfi í fjölmörgum greinum tengdum landbúnaði á borð við í fóðurgeiranum og í sláturhúsum.