Skoðun

Hjartahnoð með hælnum

Sigmundur Guðbjarnason skrifar
Í grein sem birtist í tímaritinu New Scientist í ágúst 2015 er fjallað um hjartahnoð, sem oft er beitt við óvænt hjartastopp og getur komið í veg fyrir heilaskaða þar til hjálp berst og bjargar þannig lífi þess sem varð fyrir áfallinu.

Bob Trenkamp kennir þessa aðferð á vegum samtaka sem nefnast „Saving Lives“ eða „Björgum lífi“ í Savannah í Georgia í Bandaríkjunum og svaraði hann nokkrum spurningum blaðamannsins Jessicu Harnzelou. Jessica spurði: „Eru einhver vandamál varðandi þá aðferð sem er notuð í dag við hjartahnoð?“ Bob svaraði: „Til að pressa brjóstkassann niður um 5 cm, sem er nauðsynlegt til að hjartað dæli eftir hjartastopp, þá þarf að beita þrýstingi sem er 59 kg á bringubeinið. Þú heldur ef til vill að þetta sé ekki mikið en konan mín er 52 kg svo þetta verður erfitt fyrir mig. Hún getur ekki náð þessum þrýstingi þegar hún er á hnjánum hjá mér en hún getur þetta með hælunum ef hún stendur upprétt.“

„Hvernig datt þér í hug að nota hælinn við hjartahnoð?“ „Ég lifi í samfélagi eldriborgara þar sem margir eru með liðagigt í úlnlið og handleggjum. Þeir gátu ekki náð viðunandi þrýstingi á æfingadúkku svo ég sagði við einn náungann, notaðu stól til að styðjast við og notaðu svo hælinn til að ná fram nægum þrýstingi á bringubeinið.“

„Hvernig gerir þú hjartahnoð standandi?“ „Þú tekur af þér skóna og stendur við höfuðið á þeim meðvitundarlausa, snýrð að fótum hans og styður þig við stól. Næst setur þú hæl á mitt brjóstið milli geirvartanna og ýtir niður tvisvar á sekúndu.“

„Er auðveldara að gefa hjartahnoð standandi?“ „Eldra fólk fær oftast hjartastopp og þá heima hjá sér. Oftast er makinn á svipuðum aldri. Við báðum 44 einstaklinga sem voru í áhættuhópi að gefa dúkkunni hjartahnoð í 10 mín. sem er sá tími sem tekur sjúkrabílinn að komast á staðinn. Aðeins sjö einstaklingar gátu gert þetta. Þrír úr hópnum gátu ekki farið niður á gólfið vegna vanheilsu. Rúmlega helmingur þeirra sem voru í hópnum gat veitt hjartahnoð með hælnum.“

Að lokum spurði Jessica: „Ert þú líklegur til að meiða einhvern?“ Bob svaraði: „Við venjulegt hjartahnoð gert með réttum þrýstingi gæti maður skaðað rifbein í einhverjum, fólk kallar það rifbrot en þau brotna yfirleitt ekki en losna frá bringubeininu. Það getur tekið allt að 60 daga að lagast aftur en ef ekki er notaður nægur þrýstingur á bringubeinið við hjartahnoð þá deyr einstaklingurinn.“

Þessu er hér komið á framfæri því við sjáum oft í dagblöðum fréttir af því að einhver hafi orðið bráð­kvadd­ur, hafi dáið skyndi­dauða, ýmist eldri og jafnvel yngri ein­stak­lingar. Frá Embætti land­læknis fáum við þær upp­lýsingar að fjöldi þeirra sem deyja skyndidauða utan sjúkra­húsa sé á bilinu 120-140 á ári og í 80% tilvika hjá fullorðnum er orsökin hjartastopp. Fólk er hvatt til að kynna sér einföld viðbrögð við hjarta­stoppi sem Endurlífgunarráð, Landlæknisembættið og Rauði kross Íslands hafa kynnt. Þessar leið­­beiningar má finna á netinu en hjarta­hnoð með hælnum er þar ekki að finna en gæti komið að gagni við sérstakar aðstæður.




Skoðun

Sjá meira


×