Handbolti

Ísland mætir Svartfjallalandi tvisvar sama daginn í Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og Karen Knútsdóttir.
Snorri Steinn Guðjónsson og Karen Knútsdóttir. Vísir/Ernir
Íslensku handboltalandsliðin munu reyna að tryggja sér sæti í næstu stórmótum í júnímánuði þegar úrslitin ráðast í undankeppni EM karla 2016 og HM kvenna 2015.

Íslenska karlalandsliðið er í baráttunni við Serbíu og Svartfjallaland um tvö laus sæti í sínum undanriðli og íslenska kvennalandsliðið er að fara í umspilsleiki á móti Svartfjallalandi.

Evrópumót karla fer fram í Póllandi 17. til 31. janúar 2016 en Heimsmeistaramót kvenna fer fram í Danmörku 5. til 20. desember 2015.

HSÍ hefur ákveðið að spila síðustu heimaleiki íslensku liðanna sama daginn og það verður því tvíhöfði í Laugardalshöllinni sunnudaginn 14. júní næstkomandi.

Stelpurnar spila klukkan 14.30 en þetta verður seinni umspilsleikurinn við Svartfellinga því sá fyrri fer fram í Podgorica í Svartfjallalandi viku fyrr.

Strákarnir spila síðan klukkan 17.00 en þetta er lokaleikur liðsins í riðlinum. Fjórum dögum fyrr spila þeir við Ísrael á útivelli.

Ísland er með fimm stig eins og Serbía en Svartfellingar eru með einu stigi meira þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×