Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur úr Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar, hóf leik í morgun á gríðarlega sterku móti á Áskorendamótaröðinni sem fram fer í Kasakstan.
Birgir Leifur, sem er sexfaldur Íslandsmeistari, fékk alls fjóra fugla á fyrsta hringnum í morgun en hann tapaði tveimur höggum á par 5 holum.
Verðlaunaféð á þessu móti er mun hærra en á sambærilegum mótum á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Alls lék Birgir á 70 höggum í dag eða tveimur höggum undir pari. Er hann þessa stundina í 18. sæti en besta skorið hingað til á danski kylfingurinn Joachim B. Hansen sem lauk leik á 63 höggum, alls níu höggum undir pari.
Er þetta sjöunda mótið sem Birgir tekur þátt í á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili en hann berst um að komast ofar á stigalistanum fyrir lokamótin.
Er hann eins og staðan er í 88. sæti en það þýðir að hann myndi fara inn á annað stig úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina á næsta tímabili. Þeir kylfingar sem enda í efstu 70. sætunum á Áskorendamótaröðinni fá keppnisrétt á næsta ár en þeir sem lenda í sætum 71-120. fá nánast fullan keppnisrétt.
