Innlent

Láta hjólin snúast á ný á Bakkanum

viktoría hermannsdóttir skrifar
Margrét Anna Símonardóttir var skírð í Eyrarbakkakirkju fyrir 92 árum síðan. Hér er hún ásamt Ástu Kristrúnu við skírnarfontinn.
Margrét Anna Símonardóttir var skírð í Eyrarbakkakirkju fyrir 92 árum síðan. Hér er hún ásamt Ástu Kristrúnu við skírnarfontinn.
Bakkastofa á Eyrarbakka er nýtt menningar- og fræðslusetur sem býður upp á dagskrá sem nefnist Eyrarbakkabrúin. „Þar gerum við sögunni, menningu og náttúrunni skil í samvinnu við Byggðasafn Árnesinga,“ segir Ásta Kristrún Ragnarsdóttir sem ásamt eiginmanni sínum, Valgeiri Guðjónssyni, stendur fyrir Eyrabakkabrúnni.

Föngulegur hópur eldri borgara frá Hallgrímskirkjusöfnuði kom í síðustu viku og voru flestir gestirnir á níræðis og tíræðisaldri. „Á sagnavökunni í kirkjunni kom í ljós að ein konan í hópnum hafði verið skírð í kirkjunni fyrir nítíu og tveimur árum. Þar var á ferð sómakonan Margrét Anna Símonardóttir ekkja Guðmundar Kjærnested, þorskastríðshetju þjóðarinnar,“ segir Ásta Kristrún.

Hún segir nafnið á dagskránni vera tilkomið vegna þess að brýr, vegir og breyttar samgöngur hafi orðið til þess að Eyrarbakki var ekki lengur í þjóðbraut. „Þorpið einangraðist og blómlegt líf menningar og verslunar, sem þorpið var víðfrægt fyrir, fjaraði smám saman út. Óseyrarbrúin kom ekki til sögunnar fyrr en löngu síðar. Nú hefur opnast fagur hringur sem leiðir fólk heim að strandþorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka. Suðurstrandavegur, Þrengslin, Óseyrarbrúin og áhuginn á sögu og sérstöðu Bakkabyggðanna hafa látið hjólin snúast á ný,“ segir Ásta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×