Innlent

„Það hafa ekki komið fram neinar efnislegar athugasemdir frá fjármálaráðherra“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Eygló Harðardóttir segir að unnið sé að breytingum á frumvarpinu.
Eygló Harðardóttir segir að unnið sé að breytingum á frumvarpinu. Vísir/Ernir/Vilhelm
Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra segir vinnu við frumvarp um stofnstyrki til félagslegs húsnæðis ganga vel. Hún segir óljóst hvernig frumvarpið mun koma fyrir þingið en hún vonast til að málið leysist á næstu dögum.



Eygló segir að unnið sé að breytingum á frumvarpinu sem snýst um að efla og byggja upp félagslegar húsnæðislausnir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. „Sú vinna gengur vel og ég vonast til að málið muni skýrast á næstunni,” segir ráðherrann.



Fjármálaráðuneytið hefur beðið hana um að draga frumvarpið til baka en það hefur hún ekki gert.



„Það hafa ekki komið fram neinar efnislegar athugasemdir frá fjármálaráðherra eða öðrum á þá árherslu okkar að byggja upp félagslegt húsnæðiskerfi í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og í mínum huga er lykilhluti af því stoframlög og húsnæðisbætur,” segir Eygló.



Fyrir liggur að fjármálaráðuneytið mun ekki kostnaðarmeta frumvarpið á meðan þessu samráði stendur. Slíkt þarf að gera við öll stjórnarfrumvörp. En kemur þá til greina að leggja frumvarpið fram sem ráðherrafrumvarp eða einfaldlega þingmannafrumvarp?



„Það liggur einfaldlega ekkert fyrir um annað en það að við eigum í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, í mjög góðu samráði sem byggist á sameiginlegu markmiði okkar allra um aðleysa úr deilum á vinnumarkaði, og ég vonast til að þess að það samráð muni fljótlega leiða til niðurstöðu,” segir hún.



„Það getur leitt síðan til að það verði gerðar einhverjar breytingar á frumvarpi um stofnframlög og ég hef sagt það ítrekað að ég sé tilbúin að gera þær breytingar sem til þarf,” segir Eygló.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×