Innlent

Fannst í ruslinu: Kettlingum fleygt inn um glugga og stundum drekkt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
„Hann var nýlosnaður við blámann úr augunum, svo lítill var hann“ segir Steinþór Helgason um kettling sem fannst í ruslatunnu fyrir utan Sorpu við Sævarhöfða í Grafarvogi.

Að sögn Steinþórs skapaðist mikil umræða um fundinn á netinu eftir að hann birti myndband af kettlingnum á Facebook-síðu sinni en Steinþór segir kettlinginn hafa verið afar illa á sig kominn þegar hann fékk hann í sínar hendur.

„Hann var með sand í augunum, rauð eyru og alveg drulluskítugur þegar hann fannst,“ segir Steinþór.  Myndband sem Steinþór birti af kettlingnum má sjá hér hér að neðan.





Posted by Steinþór Helgason on Thursday, 14 May 2015
Hann grunar að fyrrum eigandi kattarins hafi viljað losað sig við hann með þessum hætti og blæs á allar vangaveltur um að kettlingurinn sé villiköttur eins og margir vinir Steinþórs létu í veðri vaka eftir að hann birti myndbandið.

„Ég held að fólk segi það einungis til að láta sér líða betur. Mér finnst hann vera það húsvanur að það fer varla á milli mála að hann hafi verið í húsi áður. Hann var alla vega kassavanur og það er svo sannarlega merki um að hann hafi verið á heimili áður,“ segir Steinþór. Hann hafi þá sjálfur í starfi sínu við sorphirðu fundið þrjá ketti í ruslatunnum og segir dæmi sem þessi langt frá því að vera einsdæmi.

Steinþór Helgason segir dæmi sem þessi mýmörg.
Halldóra Snorradóttir hjá Kattholti tekur í sama streng. Mikið hafi borið á því að eigendur katta losi sig við þá með ómannúðlegum hætti. 

„Köttum hefur verið hent inn um gluggann hjá okkur, þeir eru yfirgefnir í kössum við bensínstöðvar og þá hefur fólk jafnvel sett kettlinga í strigapoka og losað sig við þá í Heiðmörk“ segir Halldóra. Þá hafi þeim í sumum tilvikum verið drekkt - „og því kemur lítið á óvart að kettlingur hafi fundist í ruslatunnu,“ bætir hún við.

Hún telur ástæður þess að kattaeigendur losi sig við dýrin sín með þessum hætti séu oft fjárhagslegar. Margir eigendanna telji sig ekki hafa efni á því að svæfa kettina sína og grípi því til ómannúðlegra ráðstafana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×