Viðskipti innlent

Dómur mildaður yfir hjónum sem höfðu verið dæmd fyrir 70 milljóna fjárdrátt

Birgir Olgeirsson skrifar
Hjónin höfðu ráðstafað þessum milljónum annars vegar til greiðslu á persónulegri skuld mannsins og hins vegar til kaupa á einbýlishúsi.
Hjónin höfðu ráðstafað þessum milljónum annars vegar til greiðslu á persónulegri skuld mannsins og hins vegar til kaupa á einbýlishúsi. Vísir/GVA
Hæstiréttur ákvað í dag að skilorðsbinda refsingu yfir hjónum á sjötugsaldri sem höfðu verið dæmd til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir 70 milljón króna fjárdrátt.

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi hjónin í fyrra fyrir fjárdrátt með því að hafa dregið sér 70 milljónir króna af fjármunum byggingafyrirtækis, en þau voru bæði stjórnarmenn og prókúruhafar í fyrirtækinu, og ráðstafað í eigin þágu. Annars vegar til greiðslu á persónulegri skuld mannsins og hins vegar til kaupa á einbýlishúsi.

Féllst dómurinn ekki á að um hafi verið að ræða lán til mannsins og konunnar frá fyrirtækinu auk þess sem þau höfðu valdið kröfuhöfum félagsins fjártjóni með ráðstöfun fjárins til sín. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að þau höfðu ekki sætt refsingu áður og að um allháa fjárhæð var að ræða.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt hjónin til tólf mánaða fangelsisvistar en Hæstiréttur ákvað að skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára. Ákvað Hæstiréttur þetta í ljós þess að meðferð málsins hefði tafist of mikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×