Skoðun

Neyslubrjálæðið

Birgir Örn Guðjónsson skrifar
Blaðamaður sem var staddur í Chile um aldamótin komst að því að fólk fór gjarnan í búðir um helgar og rölti um gangana á meðan það raðaði alls konar fínum vörum í körfuna hjá sér. Eftir að hafa eytt góðum tíma við að skoða, sýna sig og sjá aðra var karfan skilin eftir og fólkið gekk út. Sumir gengu líka um göturnar spjallandi í leikfangasíma. Markaðurinn í Chile hafði blásið út á nokkrum árum. Það hafði gerst svo hratt að það var vonlaust fyrir suma að halda í við hann með neyslunni. Margir sátu bara eftir í fátæktinni en sumir vildu vera með og fóru því í þykjustuleik. Það var líka svo sem hægt að redda sér með kredid. Fólk keypti jafnvel kartöflur á raðgreiðslum. Við brosum kannski að þessu en þetta er engu að síður ótrúlega sorglegt. Það er sorglegt sjálfsmynd samfélagsins er svo samofin neyslunni að fólk þarf að kaupa grímubúninga til að fá aðgang.

Þegar íslenska efnahagsundrið hrundi fyrir sjö árum síðan klöppuðum við hvort öðru hughreystandi á bakið og sögðum að það jákvæða í þessu öllu væri allavega sú staðreynd að við áttuðum okkur á því hvað það væri sem skipti raunverulega máli í lífinu. Já, það var fyrir SJÖ árum síðan. Ekki sjötíu. Mikið rosalega hljótum við að vera fljót að gleyma. Nema við höfum bara haft rangt fyrir okkur. Kannski er hægt að kaupa hamingjuna?

Á Íslandi í dag er það vinsæl skemmtun hjá mörgum fjölskyldum að fara á röltið í verslunarmiðstöðvum. „Smáralind – Góða skemmtun“ heyrðum við sagt í auglýsingum. Verslun er afþreying í neyslusamfélaginu okkar. Við öðlumst líka ótrúlega hamingju á því að keyra um syngjandi í nýjum og glansandi bíl með börnin okkar tvö og hundinn. Tilboðunum rignir yfir okkur á slíkum hraða að okkur finnst við vera að tapa með hverju því tilboði sem við missum af. Markaðurinn er að springa út og við verðum að fylgja honum eftir, sama hvað það kostar. Við erum ekki bara komin með pinnið á minnið heldur getum við stimplað það inn blindandi, með vinstri.

Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þessi tilhugsun um endurtekið öfga neyslusamfélag vægast sagt sorgleg. Ég held að þetta hafi eiginlega gerst alveg óvart. Þið vitið, hvers eigum við að gjalda? Okkur er stýrt af endalausum auglýsingum um betra líf og blóm í haga ef við kaupum flottari föt á dýrari snaga. Við göngum um verslunarmiðstöðvarnar eins og uppvakningar með útréttar hendur, með pokann í annarri og kortið í hinni. „Gemmér omagio....og töfaldan latte….með karmellusírópi“.

Nú eru jólin framundan. Veisla markaðarins. Jólin eru algjörlega dásamlegur tími og að versla er partur af honum. Það er bara þannig. Mig langar samt til að koma með áskorun til þjóðarinnar. Áskorun um að gera jólin betri fyrir okkur öll. Áskorun um að láta ekki leiða okkur út í eitthvað neyslu brjálæði enn eina ferðina. Áskorun um að láta skynsemina ráða. Áskorun um að taka meðvitaða ákvörðun um að verða ekki heilalausir verslunar uppvakningar. Reynum að vera skynsöm. Hjálpumst þannig að við að taka pressuna af hverju öðru.

Mig langar líka til að biðja ykkur um annað. Það er að láta jólasveininn ekki vera á glænýjum og eldrauðum 38 tommu upphækkuðum Landkrúser sem gefur börnum fáránlega dýrar gjafir í skóinn. Það færir kannski sumum hamingju í smá stund en það færir öðrum börunum (og foreldrum) pottþétt vonbrigði. Það er ekkert jólalegt við það. Nákvæmlega ekkert!

Ikea er æði en jólin mín byrja ekkert þar. Þau byrja bara þar sem ég vil og ég þarf ekki að kaupa neitt til að þau komi. Við þurfum ekki að blása út einhvern gervimarkað með því að leggja fjárhaginn okkar á fórnaraltarið. Það væri frábært að heyra fréttir af „met jólaverslun“ ef við hefðum efni á því. Það er bara ekki þannig. Ég held að við sjáum það öll. Við erum bara svolítið eins og þessir Chile búar sem ganga um búðirnar með vörur sem þeir hafa ekki efni á að kaupa. Viljum við hafa það þannig?

Hættum þessu ofneyslubrjálæði. Við höfum ekki efni á því og jörðin okkar hefur ekki efni á því. Þetta árið skulum við hjálpast að við að breyta þessari hefð. Tökum pressuna af þessari árstíð og njótum hennar í botn með hvert öðru.




Skoðun

Sjá meira


×