Skoðun

Opið bréf til fyrrum útvarpsstjóra

Bjarni Pétur Magnússon skrifar
Mörgum okkar starfsmanna Ríkisútvarpsins þykir miður að lesa síðbúna áramótakveðju þína í Fréttablaðinu í dag og því get ég ekki orða bundist. Einkum og sér þykir okkur slæmt að látið er í það skína í greininni að hér hafi bara allt verið í góðu lagi þegar þú fórst frá og uppsagnir sextíu samstarfsmanna okkar hafi verið vel ígrundaðar og til þess gerðar að ná jafnvægi í rekstrinum. Ekki vitum við hvernig þú skilgreinir jafnvægi en að okkar mati „loguðu eldar“ um allt hús. Dagskrá Rásar 1 var vægast sagt í molum, ekki var hægt að reka rásina því mikið efni vantaði í dagskrána og fylla þurfti upp með endurteknu efni í síbylju, okkur sem eftir vorum ekki til sóma.

Á þínum tíma sem útvarpsstjóri ríkti hér óvissu- og öryggisleysistími, uppsagnir og niðurskurður voru nánast daglegt brauð. Sá tími er ef til vill ekki liðinn en okkur starfsmönnum finnst þó sem nýir stjórnendur berjist nú sem einn maður að því að koma á auknu öryggi og betra starfsumhverfi, sem ekki var undir þinni stjórn hverju svo sem um er að kenna.

Að lokum er rétt að leiðrétta það þegar þú talar um að hlutur RÚV í sjónvarpsáhorfi landsmanna hafi á síðasta ári lækkað þá er hið rétta að hlutur Ríkisútvarpsins hefur aldrei verið meiri frá upphafi rafrænna mælinga sbr. tölur frá Capacent.




Skoðun

Sjá meira


×