Skoðun

Hluti áheita ekki til góðgerða

Ragnar Schram skrifar
Þannig hljómar nýleg fyrirsögn í fréttamiðli hér á landi. Var verið að vísa til þess að þegar gefið var 1.000 króna áheit til góðs málefnis í gegnum hlaupastyrkur.is hélt Reykjavíkurmaraþon eftir allt að 100 krónum í kostnað og 900 krónur fóru þá til góðgerðarfélagsins (og af þeim 900 krónum fer hugsanlega eitthvað í rekstur þess félags). Það þarf ekki að vera óeðlilegt. Það kostar fé að afla fjár, það vita allir sem staðið hafa í fjáröflun.

Hins vegar er afar mikilvægt að upplýsa þann sem gefur í hvað peningarnir fara. Þar virðist Reykjavíkurmaraþon hafa runnið til á hálu malbikinu. Sá sem gefur til góðs málefnis á rétt á þessum upplýsingum. Víða er þó pottur brotinn í þeim efnum.

Á hverju ári standa mörg góð samtök hér á landi fyrir áberandi fjáröflunum og tugþúsundir landsmanna gefa til góðra málefna. Því ber að fagna. En kostnaður við eina stóra söfnun getur numið tugum milljóna. Slíkt þarf ekki að vera óeðlilegt og má alls ekki fela. Aðalatriðið er að styrktaraðilar viti hve mikið þeir borga í kostnað. Því miður er það ekki alltaf svo og skora ég á þá sem standa í opinberum fjáröflunum að upplýsa um þessa hluti á sem heiðarlegastan hátt. Jafnvel þó svo að kostnaður sé upp á 20% eða meira eins og stundum vill verða.

Og svo ég undanskilji ekki þau samtök sem ég sjálfur starfa fyrir þá fóru 13% heildarframlaga SOS Barnaþorpanna í fyrra í kostnað við rekstur og fjáröflun samtakanna eins og glöggt má sjá á heimasíðu þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×