Innlent

Kosningaþátttaka Íslendinga fer stöðugt minnkandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Innan við helmingur ungs fólks hafði áhuga á að nýta kosningaréttinn í sveitarstjórnarkosningunum síðast liðið vor. Sérfræðingur í kosningahegðun segir minkandi flokkshollustu hafa mikil áhrif og mikil breyting hafi átt sér stað eftir hrun efnhagslífsins.

Íslendingar hafa státað af mjög góðri kjörsókn í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna en í undanförnum kosningum hefur kjörsóknin nánast hrunið. Þannig hefur heildarkjörsóknin í sveitarstjórnarkosningum fallið úr 83,2 prósentum árið 2002 í 66,5 prósent síðast liðið vor.

Eva Heiða Önnudóttir doktorsnemi í stjórnmálafræði við Mannheim háskóla í Þýskalandi vinnur nú ásamt fleirum að rannsókn á kosningaþátttökunni í síðustu kosningum ásamt fleirum hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Hún segir stjórnmálaþátttöku almennt hafa farið minnkandi á Íslandi sem og í Evrópu um nokkur prósentustig á milli kosninga en hún hafi fallið um 10 prósentustig hér á landi í vor.

Hagastofa Íslands greindi kosningaþátttöku fólks eftir aldurshópum í fyrsta skipti í sveitarstjórnarkosningunum hinn 31. maí síðast liðinn. En hingað til hefur kosningaþátttaka einungis verið greind eftir kyni. Niðurstöðurnar eru sláandi.

Þannig sáu aðeins 45,4 prósent fólks á aldrinum 25 til 29 ára ástæðu til að mæta á kjörstað. Allra yngstu kjósendurinir, átján og 19 ára,  voru aðeins áhugasamari. Um 52 prósent þeirra kusu en mest var kjörsóknin hjá fólki á aldrinum 60 til 79 ára þar sem 82,8 prósent nýttu kosningarétt sinn.

Eva Heiða segir þó ekkert benda til að kosningaáhugi fólks hafi minnkað hins vegar geti fólk vantað hvata til að mæta á kjörstað.

„Og eitt af því sem skiptir verulegu máli fyrir kosningaþátttöku er hversu sterk tenging fólks er við stjórnmálaflokkana. Þannig að þeir sem eru hliðhollir ákveðnum flokki mæta frekar á kjörstað til að styðja sinn flokk. Það er þáttur sem hefur mögulega breyst verulega á síðustu fjórum til sex árum. Mögulega tengist það þessu aukna vantrausti á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum og það má leiða líkur að því að þetta unga kjósendur en þá sem eldri eru. Vegna þess að yngri kjósendur hafa ekki myndað þessi tengsl við flokkana,“ segir Eva Heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×