Skoðun

Eineltismenning í samfélögum

Hildur Jakobína Gísladóttir skrifar
Afleiðingar eineltis eru flestum kunnar. Að lenda í einelti er áfall bæði fyrir börn og fullorðna og getur haft verulega alvarlegar sálrænar afleiðingar fyrir þann sem fyrir því verður. Kvíðinn sem barnið finnur fyrir þegar það þarf að mæta geranda sínum í skólanum er mikill, eins og þess fullorðna sem þarf að líða einelti af hálfu samstarfsaðila. Fullorðið fólk ber ábyrgð á börnunum sem hafa hvorki þroska né úrræði til að verja sig og bjarga sér. Þetta á við um eineltismál eins og önnur mál, enda er einelti samfélagsvandamál sem fullorðið fólk þarf að leysa.

Einelti er ein tegund ofbeldis og eins og í öðrum ofbeldismálum á aldrei að semja við gerandann. Það ríkir einfaldlega ekki jafningjagrundvöllur þar sem annar aðilinn beitir hinn ofbeldi. Þolandi og gerandi eiga aldrei að vera í þeirri stöðu að þurfa að takast í hendur til að leita sátta. Það gengur einfaldlega ekki upp þegar ofbeldi á í hlut. Ímyndið ykkur að fórnarlamb nauðgunar sé sett í þá stöðu að sættast við nauðgara sinn með handabandi.

Alveg eins og einelti getur þrifist á vinnustöðum getur eineltismenning verið ríkjandi í samfélögum. Það geta verið nokkrir fullorðnir aðilar í litlum samfélögum sem halda samfélaginu í skefjum með ofbeldi og eineltistilburðum sem verða til þess að aðrir í samfélaginu þora ekki að standa uppi í hárinu á þessum aðilum. Þeir vita hvað bíður þeirra geri þeir það. Þegar svo er komið verður til eineltismenning þar sem fáir ríkja og aðrir verða annaðhvort ómeðvitað eða meðvitað þátttakendur í eineltinu eða þögul vitni.

Til er íslenskt samfélag sem er með virka Facebook-síðu fólks sem hefur þann tilgang að hæða og gera lítið úr öðru fólki í samfélaginu. Enginn þorir að rugga bátnum og ástandið er óheilbrigt. Það er hægt að líkja þessu við áfengissjúka fjölskyldu þar sem meðvirkni ríkir. Hins vegar er ofbeldið sem hlýst af eineltinu „hvati“ þeirra sem þegja. Þetta eru mannleg og eðlileg viðbrögð fólks við óeðlilegum aðstæðum sem eru óheilbrigðar og mannskemmandi. Þetta er ofbeldi. Spáið í hvaða skilaboð við erum að senda börnunum okkar.

Brotist út úr vítahringnum

Í litlum samfélögum verða stjórnendur sveitarfélaganna að bregðast við ástandi sem þessu. Þeir bera ábyrgð á sínu samfélagi eins og forstjórar bera ábyrgð á sínum fyrirtækjum. Sama lögmál á við hér. Það verður að ræða málið opinskátt og hætta að fela það eða tala í hálfum hljóðum þar sem enginn heyrir. Íbúaþing þar sem vandinn væri ræddur á opinskáan hátt væri þjóðráð. Þar kemur fram vilji flestra til að koma málunum í lag. Miklar líkur eru samt á að gerendurnir eða ofbeldismennirnir sem vilja stjórna samfélaginu með ofbeldi mæti ekki á fundinn en það er í raun alveg sama þar sem á fundinum verður gert ljóst að slík hegðun í samfélaginu sé ekki liðin og það þjappar góða hópnum saman og styrkir hann og stjórnendur í baráttunni gegn þessum illu öflum. Öllum verður ljóst að einelti sé ekki liðið og að þöggunin sé besti vinur ofbeldismannsins. Þetta er leið til að flæma þá í burtu sem eiga það skilið en ekki þá sem verða fyrir ofbeldi eins og virðist því miður oftar vera raunin.

Í heimilisofbeldismálum er nú farið að fjarlægja gerandann af heimilinu í stað fórnarlambsins og það sama á að eiga við um gerendur í eineltismálum. Einelti þarf að stöðva því það lagast ekki af sjálfu sér. Svo er enn meiri skaði skeður fyrir samfélög sem eru komin á síður fjölmiðla sem samfélag sem lætur ofbeldismenn vaða uppi. Samstaða og upplýst umræða eru lykilorð í baráttunni gegn einelti því það splundrar samfélögum og eitrar og afleiðingar þess geta haft víðtæk áhrif. Ég skora á stjórnendur samfélaga sem glíma við slíkan vanda að sýna ábyrgð og þor og taka á meininu strax áður en skaðinn verður of mikill.




Skoðun

Sjá meira


×