Lífið

Kæst og kæfandi skata á Þorláksmessu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Mörgum þykir skata herramannsmatur.
Mörgum þykir skata herramannsmatur. Vísir/Valli
Mörgum þykir skatan herramannsmatur en aðrir eru ekki eins hrifnir og er það oft lyktin sem veldur.

Skötulykt er sérstök og mörgum þykir hún jafnvel yfirþyrmandi, hún sest gjarnan í föt og staldrar lengur við í húsakynnum en fólk vill.

Af þessum sökum hafa margir skötuunnendur brugðið á það ráð að borða hana annars staðar en heima og þannig slegið tvær flugur í einu höggi, fengið að snæða vel kæsta skötu án þess að lyktin setjist í jólagjafirnar.

Hægt er að melda sig í skötuveislur á ýmsum stöðum meðal annars á veitingastöðum, bifreiðaverkstæðum og hjá björgunarsveitum.

Björgunarsveitin Björg á Suðureyri býður til skötuveislu klukkan sex í húsnæði sveitarinnar. Einnig verður boðið upp á saltfisk og fólk hefur kost á því að kaupa flugelda af björgunarsveitinni fyrir áramótin.

Blásið verður til árlegrar skötuveislu Tækniþjónustu bifreiða í Hjallahrauni 4 í Hafnarfirði, en þetta er í tíunda sinn sem skötuveisla er haldin á verkstæðinu. Herlegheitin byrja klukkan fimm og stendur yfir svo lengi sem birgðir endast. Allir eru velkomnir og boðið verður upp á skötu beint frá Bolungarvík.

Íslenski barinn í Ingólfsstræti er einn af þeim veitingastöðum sem reiðir fram skötuhlaðborð í dag. Á boðstólum verður mild og sterk skata fyrir þá hugaðri en einnig verður boðið upp á saltfisk fyrir þá sem einungis vilja njóta lyktarinnar. Hægt er að panta borð í síma 517-6767.

Boðið verður upp á skötu á Eyrarbakka.Vísir/Valli
Í Rauða húsinu á Eyrarbakka verður haldin skötuveisla. Kjörið er fyrir höfuðborgarbúa að bregða undir sig betri fætinum og kíkja í Rauða húsið í skötuveislu. Borðapantanir eru í síma 483-3330.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×