Skoðun

Vinstri græn berjast fyrir friðlýsingu húsa

Sóley Tómasdóttir skrifar
Í grein Björns B. Björnssonar í Fréttablaðinu 31. janúar kemur fram réttmæt gagnrýni á meirihluta borgarstjórnar sem hefur lagst gegn friðlýsingu sjö húsa í hjarta Reykjavíkur. Björn og félagar hans í BIN-hópnum hafa beitt sér gegn stórkarlalegri uppbyggingu á svæðinu.

Það hafa fleiri gert. Fulltrúar Vinstri grænna í dómnefnd samkeppninnar, í skipulagsráði og í borgarráði og borgarstjórn hafa beitt öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir að skipulagið yrði samþykkt.

Nú þegar húsafriðunarnefnd hefur lagt það til við forsætisráðuneytið að umrædd hús verði friðuð kallar ferlið á umsagnir úr ólíkum áttum. Eins og kemur fram í grein Björns, þá mótmælir meirihluti skipulagsráðs friðlýsingunni svo hægt sé að halda áformum deiliskipulagsins til streitu. Það sem hann tekur ekki fram er að umsögninni fylgdi svohljóðandi bókun Vinstri grænna í umhverfis- og skipulagsráði:

„Fulltrúi Vinstri grænna fagnar áformum Minjastofnunar og furðar sig á mótbárum og andstöðu meirihluta skipulagsráðs vegna friðlýsingar á húsum við Austurvöll, Vallarstræti og Ingólfstorg. Fá ef nokkur dæmi eru um að Reykjavíkurborg mótmæli friðun húsa, enda hefur metnaður fyrir húsvernd farið vaxandi undanfarin ár og áratugi. Athugasemdir meirihlutans varða ekki efnisatriði málsins, sem lúta að því að friðlýsa nokkur af elstu húsum borgarinnar sem standa í hjarta hennar og hafa ótvírætt varðveislugildi. Fulltrúinn mótmælir því jafnframt að ekki sé þörf á að friðlýsa húsin þar sem borgin hafi mótað sér stefnu sem geri eldri byggð hærra undir höfði en áður. Ljóst er að sú stefna, eins góð og mikilvæg og hún er, hefur ekki sama gildi og friðlýsing. Það er því full ástæða til að fagna áformum Minjastofnunar, enda krefjast þau varkárni í umgengni, skipulagi og uppbyggingu á svæðinu öllu.”

Vinstri græn hafa, og munu áfram, standa með varðveislu þeirra menningarverðmæta sem felast í hús- og minjavernd.




Skoðun

Sjá meira


×