Skoðun

Fram yfir síðasta söludag?

Auður Jóhannesdóttir skrifar
Undanfarið hefur orðið vitundarvakning um matarsóun á Íslandi, þar sem strangar reglur um fyrningu matvæla hafa tekið við af hyggjuviti og trausti á lyktarskyni og sjón sem hafa um aldir hjálpað okkur að meta hvort óhætt er að leggja okkur eitthvað til munns.

Nýlega átti ég með nokkurra daga millibili þátt í samræðum þar sem fullfrískt og frambærilegt fólk um miðjan aldur sagðist lenda á hverjum veggnum á fætur öðrum í atvinnuleit sinni vegna þess að það þætti of gamalt. Þá varð mér hugsað til umfjöllunar sem ég sá um matarsóun sem sýndi ruslagám við stórmarkað sem var barmafullur af girnilegu grænmeti og óskemmdri pakkavöru.

Þetta fólk var sumsé lent í ruslagáminum. Margir atvinnurekendur virðast nefnilega kjósa að túlka kennitölur sem algilda best-fyrir dagsetningu frekar en að leyfa sér svo mikið sem að lykta af vörunni og velta því fyrir sér hvort hún væri ekki vel nýtileg í máltíð dagsins og gæti jafnvel gætt hana nýjum töfrum.

Önnur hindrun sem þessir kunningjar mínir lentu á var að þeim hafði verið hafnað vegna of mikillar þekkingar og reynslu. Of mikillar? Er yfirmaður þá hræddur við að starfsmaðurinn skyggi á hann? Eða um að viðkomandi muni ekki staldra lengi við? Er ekki einmitt tilvalið að ráða einhvern „óverkvalifæd“ ef slíkur starfskraftur býðst, jafnvel í skamman tíma, og sjá hvaða galdur verður þegar nýtt krydd er sett í pottinn?

Það er ef til vill ekki skrítið að margir ríghaldi í störfin sín, jafnvel þótt þeir séu ekki lengur á réttum stað. Ég sem hélt að það væri ekki lengur í tísku að lafa nógu lengi á sama staðnum til að fá gullúr að launum.

Nú get ég að sjálfsögðu ekki alhæft um aðstæður eldri aldurshópanna á vinnumarkaði út frá nokkrum dæmum – skráð atvinnuleysi er vissulega minna í elstu hópunum en þeim yngstu, en þetta viðhorf, að fólk á miðjum aldri og eldra sé óaðlaðandi starfskraftur, virðist nokkuð útbreitt og því er viðhaldið í orðræðunni.

Þurfum við ekki að breyta þessu og hætta að túlka fæðingardaga sem leiðbeiningu um fyrningardag? (Helst án tafar, minn „best-fyrir dagur“ nálgast nefnilega óðfluga)

Mestu skiptir samt að það er óhagkvæmt að láta sóun viðgangast, hvaða auðlind sem um ræðir, mat eða mannauð, sérstaklega ef við stefnum öll á að verða hundrað ára.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×