Skoðun

Örlítil ábending

Guðmundur J. Guðmundsson skrifar
Meðal þeirra sem blönduðu sér í skammdegisþvarg aðventunnar 2014 um kirkjuheimsóknir skólabarna var biskup Íslands. Í viðtali við Ríkisútvarpið rétt fyrir jól sagði hún meðal annars:

„Þetta er hluti af fræðslu, þetta er hluti af menningararfi þjóðarinnar. Og þetta er hluti af því að börn sem eru ekki fædd hér til dæmis, eða eiga ekki foreldra sem hafa fæðst hér, læri það, hvað það er að vera Íslendingur og hvað það er að búa hérna vegna þess að lög og reglur okkar eru miðaðar við kristin gildi…“

Ekki skal gerð athugasemd við þá fullyrðingu að kristni sé snar þáttur í menningararfi okkar en í seinasta hluta málsgreinarinnar kemur fram mjög sérkennileg fullyrðing þess efnis að lög okkar og reglur séu miðaðar við kristin gildi, hana er vert að skoða nánar.

Ekki þarf mikla söguþekkingu til að vita að lög og þar með stjórnskipun landsins eru einkum byggð á þremur þáttum. Í fyrsta lagi Rómarrétti sem mótaðist í meginatriðum frá 450 f.Kr. með tólftöflulögunum og fram á þriðju öld f.Kr. Rómarréttur hefur því harla lítið með kristni að gera þótt miðaldakirkjan hafi tekið hann seinna í þjónustu sína.

Í öðru lagi stjórnskipunarhugmyndum upplýsingaraldar sem miðuðu að því að takmarka völd konunga og aðskilja grunnþætti ríkisvaldsins. Í þessum hugmyndum fer lítið fyrir þætti kirkju eða kristni enda flestir þeirra sem þar stóðu fremstir í flokki litlir vinir kirkjulegra stofnana. Þriðji þátturinn er svo arfur frönsku stjórnarbyltingarinnar og bandarísku byltingarinnar en þar var m.a. leitast við að skilja trú og ríkisvald að og gengu Bandaríkjamenn hvað harðast fram í þeim efnum.

Að einn af æðstu embættismönnum landsins skuli halda því fram að lög og reglur sem byggjast á þessum þremur þáttum miðist við kristin gildi lýsir svo neyðarlegri vanþekkingu að með ólíkindum hlýtur að teljast og best að hafa ekki fleiri orð þar um. Miðfullyrðingin um hvað það sé að vera Íslendingur er svo kapítuli út af fyrir sig og læt ég öðrum hana eftir.




Skoðun

Sjá meira


×