Skoðun

Fjórðungur úr prósenti

Jóna Hlíf Halldórsdóttir skrifar
Myndlistarsjóður var stofnaður fyrir tveimur árum þegar nokkrir samkeppnissjóðir myndlistarmanna og listfræðinga voru sameinaðir í einn sjóð.

Á þessum tveimur árum hefur sjóðurinn verið skorinn niður úr 45 milljónum króna í 25 milljónir króna, sem ekki er ásættanlegt. Þessum niðurskurði höfum við myndlistarmenn mótmælt með eftirminnilegri samstöðu á fjölmennum fundi í Iðnó í október sl. og skýrri ályktun á nýafstöðnu myndlistarþingi. Enda felur niðurskurður Myndlistarsjóðs í sér hættu fyrir lífæðar myndlistarinnar: grasrótina, sjálfstætt sýningarhald, ný verkefni og umfjöllun um myndlist.

Opinberir samkeppnissjóðir á sviði menningarmála eru fjölmargir og ná m.a. til bókmennta, tónlistar, leiklistar og kvikmynda. Þeir eru uppbyggðir með sama hætti, fjöldi manns sækir um takmarkaða fjármuni og nokkrir sjá hugmyndir sínar verða að veruleika.

Niðurskurður Myndlistarsjóðs er hlutfallslega meiri en hjá sambærilegum sjóðum. Enn stendur sjóðurinn langt að baki sjóðum annarra listgreina, svo sem bókmennta og tónlistar. Það eitt og sér er óréttlátt, enda á ekki að taka eina starfsstétt út fyrir sviga og láta hana líða fyrir misskiptingu.

Myndlistarmenn hvetja því stjórnvöld til að leiðrétta skerðinguna til sjóðsins og hækka framlög til jafns við sambærilega sjóði.

Að geta séð samhengi

Þetta mál snýst ekki um forgangsröðun, það sjá allir. 44% niðurskurður á Myndlistarsjóði mun ekki rétta af fjárlagahalla. Til þess þyrfti verulega stefnubreytingu í opinberri fjármögnun menningarverkefna. Þetta mál snýst um að geta séð samhengi.

Tuttugu milljónir króna munu ekki framkalla annað hrun eða sigla þjóðarskútunni í strand. Þessir fjármunir eru brotabrot af bættri afkomu ríkissjóðs sem nýta á í fjárlagafrumvarp næsta árs: fjórðungur úr prósenti. Nánar tiltekið eru 20 milljónir bara 0,24% af 8,5 milljörðum.

Það hefur enda sýnt sig að fyrir þessa upphæð er hægt að flytja styttu. Það væri líka hægt að fjármagna tuttugu ný verkefni, gera ný verk og skrifa bækur um myndhöggvara. Starfshæfni Myndlistarsjóðs byggir á fjármagni, að lágmarki 45 milljónir íslenskra króna.

Til varnar myndlistinni

Við myndlistarmenn viljum mikið en biðjum ekki um mikið: að myndlistin sé metin að verðleikum, að fagsjóður okkar sé jafnsettur öðrum fagsjóðum og að hann geti sinnt hlutverki sínu. Hálfur Myndlistarsjóður mun ekki geta sinnt hlutverki sínu, öllum til ama.

Þess vegna verður Alþingi að tryggja Myndlistarsjóði fjármagn til jafns við aðra samkeppnissjóði. Með því verður með sanni hægt að rækta mannlega hlið samfélagsins og sjá til þess að hér verði búið til eitthvað umhugsunarvert, flókið, fallegt og eftirminnilegt. Þannig sýnum við hver við erum og úr hverju við erum gerð. Alþingi ber skylda til að tryggja Myndlistarsjóði fjármagn til jafns við vægi annarra lista. Þannig ræktum við mannlega hlið samfélagsins, þannig sköpum við fegurð, viðhöldum minni og menningu og framhaldi.

Við myndlistarmenn viljum fjórðung úr prósenti til varnar myndlistinni.




Skoðun

Sjá meira


×