Skoðun

Ævintýri Harrý Potter á Alþingi

Finnur Árnason skrifar
Í ævintýrum Harrý Potter er einn sem ekki má nefna á nafn. Í Hogwarts-skóla má ekki segja Lord Voldemort, þó svo að allt snúist um hann þegar upp er staðið. Það er ekki frá því að þessi samlíking komi upp í hugann, þegar umræða um matarskatt á sér stað á Alþingi Íslendinga þessa dagana. Þar tala allir um mikilvægi þess að matvöruverð sé lágt og að það verði að gera hvað sem er til þess að koma í veg fyrir hækkun á matvöruverði, en það talar enginn þingmaður um Lord Voldemort. Af hverju? Má ekki nefna hann á nafn?

Tveir meginþættir ráða því að matvöruverð á Íslandi er eins og það er. Bein skattlagning á vöruna, en sama varan getur verið skattlögð í mörgum þrepum, með magntolli, verðtolli, vörugjaldi, umbúðagjaldi og síðast en ekki síst virðisaukaskatti. Hins vegar eru dulin álög á heimilin hluti af vöruverði, þar sem verndartollar og viðskiptahöft valda því að verð á ákveðnum vörum er mun hærra en það annars gæti verið. Það hafta- og tollakerfi sem Alþingi hefur ákveðið að íslensk heimili búi við, kostar heimilin skv. nýjustu tölum OECD yfir 15 milljarða króna árlega.

Öll þessi skattlagning fer í sama sjóðinn, ríkissjóð. Því er með öllu óskiljanlegt að það þurfi mörg þrep skattlagningar til þess eins að koma hluta af verðmæti einnar vöru í ríkissjóð. Innfluttur rjómaís er t.a.m. skattlagður í öllum fimm framangreindum þrepum. Síðasta þrepið, virðisaukaskattur, er líklega einungis um 15% af heildarskattlagningu þeirrar vöru.

Nú er rætt um breytingu á síðasta skattþrepinu, virðisaukaskatti úr 7% í 11%. Vörugjöld falla niður og einfalda þar með innheimtu skatta af sömu vörunni. Því ber að fagna. En betur má ef duga skal. Af hverju nefnir enginn þingmaður lækkun tolla í umræðu um verðlag á matvöru? Aukið viðskiptafrelsi er augljós leið til þess að bæta hag íslenskra heimila og auka kaupmátt þeirra. Hvað tefur?




Skoðun

Sjá meira


×