Viðskipti innlent

Reikna með þriggja prósenta hagvexti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar, kynnti þjóðhagsspá á Hilton Reykjavík Nordica.
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar, kynnti þjóðhagsspá á Hilton Reykjavík Nordica. fréttablaðið/pjetur
Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,1 prósent á þessu ári samanborið við 3,5 prósent í fyrra. Síðan er spáð 3,2 prósenta hagvexti á næsta ári og 2,9 prósenta vexti á árinu 2016. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem var birt í gær.

Samhliða þessu muni hagur fyrirtækja og heimila halda áfram að batna. Hagvöxtur í ár verði byggður á miklum vexti í innlendri eftirspurn, sem mun jafnframt halda áfram að aukast allhratt á næstu tveimur árum þó að nokkuð dragi úr vextinum.

Greining segir að framleiðsluslakinn sé nú nánast horfinn úr íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur næstu tveggja ára verði það mikill samkvæmt spánni að framleiðsluspenna fari að myndast í hagkerfinu á tímabilinu. Því muni fylgja aukin verðbólga sem Seðlabankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta. Einnig muni þróttmikill hagvöxtur birtast í því að atvinnuleysi minnkar frekar og staða vinnumarkaðarins batnar.

„Á næsta ári spáum við að verðbólga aukist nokkuð frá yfirstandandi ári, og enn mun bæta í verðbólgutaktinn árið 2016. Aukinn gangur í efnahagslífinu mun væntanlega endurspeglast í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Verðbólgan verður engu að síður í grennd við verðbólgumarkmið Seðlabankans á spátímanum,“ segir í spánni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×