Viðskipti innlent

Sala á Rás 2 yrði ekki til að leysa rekstrarvanda Ríkisútvarpsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Illugi Gunnarsson segir vanda RÚV ohf. vera uppsafnaðan yfir mörg ár, en engu að síður sé hann alvarlegur.
Illugi Gunnarsson segir vanda RÚV ohf. vera uppsafnaðan yfir mörg ár, en engu að síður sé hann alvarlegur. fréttablaðið/Ernir
Það brá mörgum í brún þegar stjórnendur Ríkisútvarpsins sendu tilkynningu frá sér í síðustu viku um að Ríkisútvarpið hefði ekki haft bolmagn til að greiða 190 milljóna króna afborgun af skuldabréfi sem var á gjalddaga 1. október. Því hafi verið samið við kröfuhafa um að fresta greiðslu til áramóta. Einkum er þar um lífeyrisskuldbindingar að ræða.

„Það er augljóst að það er alvarlegt fyrir fyrirtæki að geta ekki staðið í skilum með sínar skuldbindingar. Það er þannig í þessu máli að hér er um að ræða uppsafnaðan vanda sem ekki varð til á þessu ári eða síðasta en hann er engu að síður alvarlegur og við honum þarf að bregðast. Ég hef fullt traust á stjórn, útvarpsstjóra og framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins til að takast á við þetta verkefni,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.

Hann segir að nú standi yfir endurskoðun á þjónustusamningi ríkisins við stofnunina. Sú vinna sé langt komin og það sé mikilvægt að nægjanlegt fjármagn fylgi frá ríkinu til þess að stofnunin geti staðið við þær skyldur sem lagðar eru á hana með þjónustusamningi.

„Það er aldrei svo að það sé greypt í stein hvert nákvæmt innihald slíks þjónustusamnings á að vera. Eðlilega getur það breyst eftir því sem tímarnir líða. En sú vinna stendur yfir núna. Ég vil líka taka það fram að það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að það þurfi að skoða fjármál stofnunarinnar sérstaklega. Og þetta gefur auðvitað tilefni til þess,“ segir Illugi.

Af hverju kemur þessi tilkynning RÚV um greiðsluerfiðleika svo óvænt, í ljósi þess að staða stofnunarinnar var vel þekkt?

„Nú er það svo að Ríkisútvarpið er með sín skuldabréf skráð á markaði og það er því að nokkru viðkvæmt mál hvernig farið er með upplýsingar um svona stöðu. Ríkisútvarpinu ber að tilkynna það til Kauphallarinnar þegar svona staða kemur upp. Og ég sé ekki betur en að það hafi allt verið gert með eðlilegum hætti,“ segir Illugi. Það hafi ekki verið hægt að gera grein fyrir stöðunni öðru vísi en með tilkynningu til Kauphallarinnar.

Illugi segir að á undanförnum árum hafi þeir fjármunir sem Ríkisútvarpið hefur yfir að ráða verið skornir töluvert niður. „Sem leiddi til þess að það voru töluvert miklar uppsagnir hjá stofnuninni fyrir nokkrum mánuðum, sem komu í kjölfarið á öðrum uppsögnum á undanförnum árum eftir hrun. Ríkisútvarpið er ekkert öðru vísi en aðrir fjölmiðlar að þeir hafa þurft að draga saman seglin. Aðrir fjölmiðlar hafa þurft að ganga í gegnum mjög sársaukafullar aðgerðir. Þótt Ríkisútvarpið njóti þeirrar sérstöðu að geta fengið rekstrarfé frá skattgreiðendum, þá var við því að búast að það myndi þurfa að draga saman seglin eins og aðrir,“ segir Illugi.

Hann segir að stjórn Ríkisútvarpsins og framkvæmdastjórn muni vitanlega setjast niður og fara yfir málið. „Og gera okkur grein fyrir því með formlegum hætti nákvæmlega hvernig staðan er.“ Hann segir það klárt mál að ef Ríkisútvarpið þarf að finna fjármuni til að greiða afborgunina af skuldabréfinu núna þá þýði það að öðru óbreyttu, að draga þurfi úr þjónustu Ríkisútvarpsins. „Það má vera ljóst.“

Mikilvægur arfur Ráðherra segir að það þurfi að skoða mörg verkefni sem Ríkisútvarpið þarf að sinna.fréttablaðið/ernir
Hefurðu fylgst með hagræðingarferlinu – er hægt að gera meira í að hagræða?

„Ég veit að frá því að núverandi stjórnendur tóku við hafa þeir unnið að hagræðingu, fyrrverandi stjórnendur höfðu unnið mjög erfitt starf við erfiðar aðstæður við að skera niður. Þannig að það hefur staðið yfir niðurskurður í nokkur ár í Ríkisútvarpinu,“ segir Illugi. Auðvitað taki þetta á og sé erfitt fyrir Ríkisútvarpið eins og allar aðrar stofnanir sem hafa mátt þola niðurskurð.

„En flestar stofnanir ríkisins hafa mátt þola þetta á undanförnum árum rétt eins og fyrirtæki í einkarekstri hafa þurft að takast á við krefjandi rekstrarumhverfi. Það hafa reyndar verið enn erfiðari verkefni sem einkareksturinn hefur staðið frammi fyrir hvað varðar að laga reksturinn að nýjum veruleika,“ segir Illugi. Mikið verk hafi verið unnið í því að hagræða. En það hafi ekki allar breytingar verið mjög vinsælar hjá Ríkisútvarpinu. „Til dæmis breytingar sem hafa leitt þá til þess að sá fornfrægi og góði liður Síðasta lag fyrir fréttir er ekki lengur síðasta lag fyrir fréttir. En ég skil það svo á forystumönnum Ríkisútvarpsins að þannig nái þeir fram aukinni hagræðingu og betri nýtingu á tæknimönnum. Það er ekki hægt að ætlast til þess í einu orðinu að þeir skeri niður og spari, en bara alls ekki það sem snýr að þessum þáttum eða öðrum,“ segir Illugi. Hann býst við að það verði alltaf einhverjir til sem segja að þessi þáttur eða hinn séu ómissandi. Ef það eigi að ráða þá verði engu hægt að breyta. „Þannig að menn verða að sýna stjórnendum Ríkisútvarpsins umburðarlyndi þegar verið er að reyna að draga úr kostnaði,“ segir Illugi.

Kemur til greina að auka fjárheimildir Ríkisútvarpsins á fjárlögum?

„Ég held að það þurfi að skoða ýmis verkefni sem það þarf að sinna,“ segir Illugi. Hann bendir á að Ríkisútvarpið geymi mikinn menningararf. Til dæmis efni frá í árdaga Ríkisútvarpsins sem er til á lakkplötum og segulbandsupptökum. Það þurfi að passa upp á að þetta efni liggi ekki undir skemmdum. „Þetta er hluti af menningararfi okkar og sögu og það kostar einhverja fjármuni að tryggja að það varðveitist. Ég held að menn geti verið sáttir við þetta alveg óháð því hvar menn standa varðandi það hversu mikla fjármuni Ríkisútvarpið á að hafa úr að spila,“ segir Illugi. Það verður líka að horfa til þess að mikið hafi verið skorið niður hjá Ríkisútvarpinu á síðustu misserum.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.
Er raunhæft að selja húsnæði Ríkisútvarpsins og lóð hússins?

„Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða allar leiðir til þess að spara í rekstrinum og gera hann hagkvæmari,“ segir Illugi. Það sé líka rétt að hafa það í huga að það húsnæði sem stofnunin er í núna hafi verið byggt við allt annað tæknistig hvað varðar útvarps- og sjónvarpsútsendingar. „Núverandi útvarpsstjóri fór strax í það að gera heilmiklar breytingar innanhúss og færa starfsemina betur saman til þess að nýta húsið betur. Þess vegna er strax kominn möguleiki á því að leigja út hluta af húsinu,“ segir Illugi. Það sé líka sjálfsagt að skoða möguleika á hvort það sé hægt að selja lóðina eða húsið allt og nýta þá fjármuni sem þar með myndu losna til þess að greiða niður skuldir. „Það er líka rétt að hafa það í huga enn og aftur að það er íþyngjandi fyrir Ríkisútvarpið að vera með þessar miklu lífeyrisskuldbindingar. Það er hættuleg staða sem fyrirtækið er í, svona skuldsett, ef til dæmis vextir fara að hækka hér verulega. Þá má gefa sér að það geti orðið stofnuninni ansi þungbært,“ segir Illugi.

Er raunhæft að selja Rás 2 og skera þannig niður kostnað.

„Hvað varðar söluna á Rás 2 þá held ég að það yrði ekki eitthvað sem myndi leysa þann vanda sem nú er uppi. Það væri þá ákvörðun sem menn tækju vegna þess að þeir teldu að Ríkisútvarpið ætti ekki að sinna þannig starfsemi. Það væri ákvörðun allt annars eðlis en að bregðast við þeim vanda sem er í rekstri ríkisútvarpsins núna,“ segir Illugi. Eðlilegt sé að ræða það alveg sérstaklega hvort það sé ástæða til þess, miðað við núverandi fjölmiðlaumhverfi, að slík starfsemi sé af hálfu ríkisins. „Það eru rök beggja vegna í málinu. Það eru sterk rök fyrir því að svo sé og það er líka alveg rétt að hlusta eftir þeim röddum sem uppi eru um að einkaaðilar geti vel sinnt þessu hlutverki,“ segir Illugi. En menn verði að hafa í huga að umræðan þurfi að markast af þjónustusamningi frekar en að líta á sölu á Rás 2 sem lausn við fjárhagsvandræðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×