Innlent

Margt líkt með sálgreiningu og Íslandi

Freyr Bjarnason skrifar
Haukur Ingi Jónasson. Um 150 manns víða að úr heiminum sækja ráðstefnu sem verður haldin í Hörpu síðar í vikunni.
Haukur Ingi Jónasson. Um 150 manns víða að úr heiminum sækja ráðstefnu sem verður haldin í Hörpu síðar í vikunni. Fréttablaðið/Anton
Ráðstefnan Psychoanalysis on Ice hefst í Hörpu á fimmtudag og stendur yfir í fjóra daga. Um 150 sálgreinar víðs vegar að úr heiminum sækja ráðstefnuna og er þetta í fyrsta sinn sem hún er haldin.

„Þetta er allt mjög þekkt fólk úr þessum geira sem kemur hingað,“ segir skipuleggjandinn Haukur Ingi Jónasson, sálgreinir og lektor við Háskólann í Reykjavík. „Þetta fólk er þekkt í sínum heimalöndum fyrir að vera með mjög skarpa sýn á samfélagið. Það er gagnrýnið og hugsar djúpt.“

Aðspurður hvers vegna Ísland varð fyrir valinu sem gestgjafi segist Haukur Ingi hafa kynnst ráðstefnugestunum er hann stundaði nám í New York. „Þau voru mjög áhugasöm um landið og fannst þetta skemmtilegur staður. Það er margt við Ísland sem er áhugavert út frá sálgreiningunni. Hún byrjaði í Evrópu og barst yfir til Bandaríkjanna og við erum einhvern veginn mitt á milli,“ segir hann og bætir við að ýmislegt sé líkt með sálgreiningu og Íslandi. „Til dæmis landslagið og hraunið. Öll þessi auðn og svo kemur alltaf eitthvað upp á yfirborðið sem er dulið. Það speglast á margan hátt á við sálarlíf fólks. Það er ekki allt sem sýnist,“ segir hann. „Þeim fannst þetta áhugaverður og hlutlaus staður til að hittast. Staður þar sem gæti verið skapandi að ræða af alvöru um fagið og hvernig á að beita því í samtímanum.“

Að sögn Hauks Inga einkennir það helst sálgreiningarmeðferð að unnið er mikið með tengsl skjólstæðingsins og meðferðaraðilans þar sem sá fyrrnefndi býður sálgreininum að skyggnast með sér inn í hugarheim sinn.

Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um þróun sálgreiningarstefnunnar og tengsl hennar við aðra strauma og stefnur í sálfræði, samfélagsmálum, háskólum og trúarbrögðum.

Fjallað verður um mansal og meðferðarvinnu með fórnarlömbum og gerendum þess. Einnig verður rætt um kynferðisafbrotamenn og morðingja. Velt verður upp spurningunni hvað gerist læknisfræðilega hjá gerendum og hvernig sé hægt að vinna með heilbrigði í öllu óheilbrigðinu.

„Sálgreiningarstefnan hefur oft verið gagnrýnd en það er almenn sannfæring ráðstefnugesta að framlag hennar til skilnings á mannlegu eðli og samfélagi sé sígild og í fullu gildi,“ segir Haukur Ingi.

Íslendingasögurnar og sálgreining

Sjálfur ætlar Haukur Ingi að halda fyrirlestur fyrir ráðstefnugesti. „Ég er að fjalla um sögu sálgreiningarinnar á Íslandi og hvernig megi túlka fyrirbæri í Íslendingasögunum, þjóðararfinum, og í íslensku nútímasamfélagi út frá sálgreiningarsjónarmiðum. Einnig mun ég ræða um hvernig íslensk jarðfræði kallast skemmtilega á við hugmyndir sálgreiningarinnar um meðvitað líf og það sem er ómeðvitað undir niðri og hvernig eitthvað nýtt og skapandi getur komið úr iðrunum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×