Skoðun

Hópleit að hópleitarkonum

Ragnheiður Haraldsdóttir skrifar
Heilbrigðisþjónusta í okkar heimshluta fæst að langmestu leyti við meðferð sjúkdóma og viðbrögð við kvillum. Of lítið virðist gert af hálfu hins opinbera til að tryggja borgurunum betra líf með því að gefa þeim kost á forvörnum greiddum úr sameiginlegum sjóðum. Í Evrópu er talið að þetta hlutfall sé um 3%, en heldur lægra hér eða um 1,6%. Þetta hefur verið gagnrýnt kröftuglega og með réttu úr mörgum áttum undanfarin ár.

Helstu vandamálin sem heilbrigðisyfirvöld standa frammi fyrir þegar kemur að ákvörðunum um úthlutun fjár til forvarna eru að áhrif slíkra aðgerða koma fram seint og um síðir, og einnig að stundum er örðugt að sýna fram á kostnaðarhagkvæmni þeirra. Þetta á ekki við um leit að leghálskrabbameini, sem stendur konum frá 23 til 65 ára til boða þriðja hvert ár. Engum vafa er undirorpið að það er mikilvæg hópleit og að árangurinn er góður. Þessi leit hefur þá sérstöðu að unnt er að finna forstig að krabbameinum, og þannig koma í veg fyrir að krabbamein myndist. Þarna er komin forvörn sem ríkið greiðir að hluta til; samfélagið hefur tekið höndum saman um að vinna gegn þessum sjúkdómi með skipulögðum, lýðgrunduðum aðgerðum.

Krabbameinsfélagið hefur borið ábyrgð á þessari leit í hálfa öld, og hefur síðustu ár gert þjónustusamning við Sjúkratryggingar Íslands þar að lútandi. Félagið hefur jafnframt stutt þessa starfsemi með sjálfsaflafé til að tryggja að verkefninu sé eins vel sinnt og raun ber vitni.

Árvekniátak

Leghálskrabbamein er smitandi veirusjúkdómur af völdum HPV og er nú öllum íslenskum stúlkum á tólfta aldursári boðin bólusetning gegn honum. Þátttaka er hátt í 90%, svo vandinn minnkar væntanlega á komandi árum. Samt verður áfram nauðsynlegt fyrir þessar stúlkur að mæta í leitina, því bólusetningin gefur ekki fullkomna vörn. Nauðsynlegt er að allir, af báðum kynjum, þekki smitleiðir og verjist smiti með tiltækum ráðum. Nú er verið að taka upp nýja tækni við meðferð leghálssýnanna sem gerir greiningu áreiðanlegri. Í framhaldinu verður unnt að mæla HPV-veirur í sýnunum og finna annars vegar þær konur, sem taldar eru í lítilli í hættu og þurfa sjaldan eða aldrei að mæta, og hins vegar þær, sem þurfa meira eftirlit. Þannig verður unnt að skipuleggja leitina meira í samræmi við áhættuna. Tækjavæðing vegna þessara nýjunga verður greidd af söfnunarfé.

Nú stendur yfir árvekniátak sem hefur það að markmiði að finna þær konur sem ekki hafa mætt í leitina, nokkurs konar hópleit að hópleitarkonum. Tökum þátt í því og hvetjum konur til að mæta; þær sem ekki hafa mætt gera það sem fyrst, en hinar þegar þær fá boð frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×