Skoðun

Velur barnið þitt öruggustu leiðina í skólann?

Anna Margrét Sigurðardóttir skrifar
Nú er haustið gengið í garð og á þessum árstíma bætast við nýir ungir vegfarendur í umferðina. Það er mismunandi hvaða ferðamáta börn nota til þess að koma sér í og úr skóla. Margir nota virkan ferðamáta eins og göngu eða hjólreiðar en öðrum er ekið til skóla.

Foreldrum er það efst í huga að börnin komist á öruggan hátt þessa leið og jafnframt eru foreldrar sá hópur sem haft getur mest áhrif á öryggi barna sinna í umferðinni.

Mikilvægt er að foreldrar þekki og kynni fyrir barninu öruggustu leiðina í skólann og fari yfir þær hættur sem leynast í umhverfinu. Í einhverjum skólum sjá foreldrar um gangbrautarvörslu á morgnana en sýnileiki foreldra í umferðinni hefur mikil áhrif á hegðun ökumanna og stuðlar að öruggara umhverfi fyrir börnin. Þegar líða tekur á skólaárið og daginn fer að stytta er einnig mjög brýnt að fylgja því eftir að börnin okkar séu vel merkt endurskini, t.d. í vesti eða með sýnileg endurskinsmerki.

Foreldrar sem kynnt hafa sér leið barna sinna til skóla annaðhvort með því að fylgja barninu eða með virkri þátttöku í gangbrautarvörslu upplifa þær aðstæður sem börnum er boðið upp á í umferðinni. Foreldrar þurfa að þekkja til þeirra aðstæðna sem börn standa frammi fyrir í umferðinni og þrýsta á um úrbætur þar sem þeirra er þörf. Það er einmitt þessi stutti tími í byrjun skóladags sem er hvað hættulegastur en þá skapast oft mikil og þung umferð í nágrenni skólanna.

Í dag, 10. september, er verkefnið Göngum í skólann sett í Laugarnesskóla. Um alþjóðlegt verkefni er að ræða þar sem milljónir barna víðs vegar um heim taka þátt með því að nota virkan ferðamáta til og frá skóla. Verkefninu er ætlað að stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu um umferðar- og umhverfismál. Virkur ferðamáti er heilsusamlegur og vistvænn ferðamáti. Með aukinni þátttöku skóla og barna í verkefninu drögum við úr umferðarþunga, hraðakstri og mengun við skóla og aukum öryggi þeirra sem nýta sér virkan ferðamáta. Niðurstöður kannana benda til þess að annað hvert grunnskólabarn á Íslandi gangi eða hjóli í skólann, við viljum fjölga í þeim hópi og jafnframt tryggja öryggi vegfarenda.

Með virkum ferðamáta leggjum við grunn að lífsstíl barna til framtíðar og aukum færni þeirra til að ganga eða hjóla í og úr skóla. Stuðlum að daglegri hreyfingu þeirra og að þau njóti fjölþætts ávinnings bæði á andlega og líkamlega heilsu.

Göngum með börnunum okkar í skólann – byrjum í dag!




Skoðun

Sjá meira


×