Skoðun

Eru íslensk fyrirtæki samfélagslega ábyrg?

Halldóra Hreggviðsdóttir skrifar
Nýlega birti Festa, miðstöð um samfélagslega ábyrgð, niðurstöður könnunar sinnar um viðhorf íslensks almennings og stjórnenda á samfélagslegri ábyrgð íslenskra fyrirtækja. Niðurstöðurnar voru bornar saman við viðhorf fólks frá ýmsum nágrannalöndum okkar og gáfu til kynna að aðeins 48% almennings á Íslandi telja áhrif fyrirtækja á íslenskt samfélag vera jákvæð. Á sama tíma þótti um 60% Bandaríkjamanna, 57% Breta og 85% Dana fyrirtækin í föðurlandi sínu hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Erum ekki samanburðarhæf

Þessar niðurstöður er hægt að túlka á margvíslegan máta, en þegar allt kemur til alls þá stendur upp úr að íslenskum almenningi þykir fyrirtæki hér á landi ekki hafa nægilega jákvæð áhrif á samfélag sitt. Við Íslendingar erum ekki samanburðarhæfir þegar kemur að því að útskýra hvernig fyrirtækin okkar hafa jákvæð áhrif á samfélagið sem við lifum í.

Ástæðurnar fyrir því hvers vegna Íslendingar eru svona miklir eftirbátar nágrannaþjóða sinna verða seint útskýrðar að fullu í fáum orðum, en mikilvægt er að vekja athygli á því að afar fá íslensk fyrirtæki eru með skýrt mótaða stefnu um samfélagslega ábyrgð sína og enn færri gera grein fyrir árangri fyrirtækis síns í málaflokknum á skipulagðan máta. Vissulega hefur áhuginn á samfélagslegri ábyrgð aukist hér á landi á undanförnum árum og vinnubrögð tengd málaflokknum batnað mikið, en betur má ef duga skal.



Mikil tækifæri

Í þeim löndum þar sem fyrirtæki þykja hafa jákvæðari áhrif á samfélag sitt en hérlendis hefur í töluverðan tíma tíðkast að vera með skýra stefnu um samfélagslega ábyrgð og er skýrslugjöf um málefnið í samræmi við það. Í Danmörku þurfa til að mynda öll fyrirtæki af ákveðinni stærðargráðu að veita upplýsingar um árangur sinn hvað samfélagslega ábyrgð varðar og í Bandaríkjunum eru nokkur ár liðin frá því að meirihluti 500 stærstu fyrirtækjanna þar í landi fóru að skila inn skýrslu um málaflokkinn með ársskýrslu sinni.

Hvort sem íslensk fyrirtæki telja sig þurfa að brúa bilið sem nú er á milli þeirra og nágrannalandanna eða ekki þá er beinlínis ljóst að ímynd þeirra líður fyrir að hafa ekki markað sér stefnu um samfélagslega ábyrgð sína. Í dag eru aðeins tíu fyrirtæki á Íslandi sem gefa út skýrslu um samfélagslega ábyrgð og er því ljóst að hér eru mikil tækifæri til þess að bæta um betur. Það verður því spennandi að sjá hvernig þessi mál þróast á komandi misserum.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×