Innlent

Biðst afsökunar á sex milljóna króna villu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ný úttekt Ríkisendurskoðunar um Þorláksbúð verður birt innan skamms.
Ný úttekt Ríkisendurskoðunar um Þorláksbúð verður birt innan skamms. Vísir/Vilhelm
„Um leið og ég biðst afsökunar á þessum mistökum mínum vil ég þakka „Vinum Skálholts“ fyrir að leiðrétta þetta,“ segir Ragnhildur Benediktsdóttir, settur framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, um rangar upplýsingar um framlög kirkjunnar til Þorláksbúðar í Skálholti.

Sex manna hópur sem kallar sig „Vini Skálholts“ benti á í grein, sem birtist á Vísi síðastliðinn þriðjudag, að rangt væri það sem haft var eftir Ragnhildi Benediktsdóttur í Fréttablaðinu 8. júlí að kirkjan hefði ekki lagt fé til Þorláksbúðar áður en Kirkjuráð ákvað í maí að veita Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljóna króna lán og eina milljón í styrk.

Ragnhildur Benediktsdóttir, settur framkvæmdastjóri Kirkjuráðs.
Sjö milljónir í styrk en ekki bara ein

„Þetta er ekki rétt hjá mér. Kirkjuráð hefur veitt félaginu á árunum 2010 til 2014 sjö milljónir króna í styrk,“ segir Ragnhildur.

Þarna skeikar sex milljónum. Samkvæmt þessu hefur Kirkjuráð nú lánað Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir króna og styrkt um 7 milljónir að auki.

Það er yfir helmingur byggingarkostnaðar eins og hann er nú sagður vera. Fram til ársins 2011 fékk félagið þess utan 9,4 milljónir úr ríkissjóði.

Áðurnefndar samtals 11,3 milljónir króna frá Kirkjuráði í vor voru ætlaðir til að gera upp við yfirsmið búðarinnar.

„Smiðurinn er verður launa sinna eftir að hafa verið vélaður til verksins á sínum tíma,“ segir í grein sexmenninganna sem fara hörðum orðum um Þorláksbúð. „Sögulegt gildi nýrrar Þorláksbúðar er ekkert,“ segja þeir meðal annars.

„En ekki síst er yfirbygging Þorláksbúðar fádæma smekkleysa, þar sem hún trónir þétt upp við kirkjuna, hornskakkt á hana.“

Eiður S. Guðnason, fyrrverandi sendiherra og "Vinur Skálholts".
Segja allt á huldu um Þorláksbúðarfélag

Þá er í grein sexmenninganna sérstaklega vikið að Árna Johnsen sem þeir segja að sé „eins konar forystusauður svonefnds Þorláksbúðarfélags.

Vitnað er til orða Árna í Fréttablaðinu um að hörð gagnrýni á Þorláksbúð hafi hindrað styrkveitingar til verkefnisins. Bent er á orð framkvæmdastjóra Kirkjuráðs um að mögulega fáist fé til Þorláksbúðar frá ríkinu.

„Hve oft hefur ekki hið opinbera þurft að greiða óreiðuskuldir ævintýramanna? Nú á að bæta þar við,“ segja þeir Eiður S. Guðnason, Hörður H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Ormar Þór Guðmundsson, Þorkell Helgason og Vilhjálmur Bjarnason.

„Allt er á huldu um hvað Þorláksbúðarfélagið er, hverjir að því standa, hvernig fjárreiður þess eru og svo framvegis,“ segja „Vinir Skálholts“.

Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður og einn forsvarsmanna Þorláksbúðarfélagsins.
Sagðir "Óvinir Skálholts"

Árni Johnsen kveðst ekki vilja svara ásökunum sexmenninganna. Þeir kalli sig „Vini Skálholts“ en séu í reynd „Óvinir Skálholts“.

Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti og stjórnarmaður í Þorláksbúðarfélaginu, vísar á nýja úttekt um Þorláksbúð sem Ríkisendurskoðun er að ljúka.

Þar sé farið ofan í saumana á málinu frá upphafi til enda.

Séra Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti og stjórnarmaður í Þorláksbúðarfélaginu.
Vill ekki munnhöggvast

„Ég nenni sjálfur ekki að munnhöggvast við menn sem taka engum rökum, það er alveg sama hvaða rök eru lögð fyrir þá – þeir taka ekkert mark á þeim,“ segir Geir.

Ríkisendurskoðun segir gerð skýrslunnar um Þorláksbúð vera á lokastigi.


Tengdar fréttir

Forsmánin við Skálholtskirkju og fjóspúkarnir á bitanum

Í Fréttablaðinu 8. júlí sl. er hálfkveðin "frétt“ um svokallað Þorláksbúðarmál. Skýrt er frá því að kirkjuráð hafi ákveðið að "lána“ Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir kr. og gefa eina milljón að auki til að félagið geti gert upp skuld við smið

Vilja Þorláksbúð burt frá Skálholtskirkju

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, segir almenna óánægju með Þorláksbúð í Skálholti og að vilji stofnunarinnar sé að húsið víki af staðnum. Talsmaður Þorláksbúðarfélagsins hafnar flutningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×